05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2999)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Enda þótt það, sem hv. þm. Borgf. sagði um iðnlöggjöfina, komi lítið þessu máli við, skal ég svara honum örfáum orðum.

Það er enginn stafur í iðnlöggjöfinni, sem bannar að flytja efni milli staða. Mér er kunnugt um, að það, sem hv. þm. nefndi til dæmis um þetta, eða atvik svipað því, hefir komið fyrir, en þar voru bara einstaklingar að verki, sem ekki studdust við löggjöfina. Ég vil biðja hv. þm. Borgf. að benda mér á það ákvæði iðnlöggjafarinnar, þar sem um þetta ræðir. (PO: Það er bein afleiðing af henni). Það er engin afleiðing hennar. Það er hvergi minnzt á þetta í lögunum.

Hitt atriðið, að menn séu seldir mansali, það nær náttúrlega engri átt. Ef ég t. d. er ráðinn í verksmiðjuna Hamar og þar verða eigendaskipti, þá get ég ekki kallað það mansal, þótt ég verði að vinna þar áfram þann tíma, sem umsamið var. Það er þess vegna hreinasta fjarstæða að tala um mansal í þessu sambandi.

Ég skal ekki fara langt út í það, sem hann sagði um sjálft frv. Það er orðið svo mikið rætt. Hv. þm. leggur einkum upp úr því í þessu máli, að hér séu nokkrir einstaklingar að tryggja sína hagsmuni. N., sem flytur þetta frv., leggur áherzlu á það, að höfuðtilgangur þessa frv. sé að auka öryggi verkafólksins. Hv. þm. nefndi það sem dæmi þess, hve verkstjórarnir hefðu viljað ganga langt, að þeir vildu hafa verkstjóra við allan búrekstur. Þetta er ekki rétt. Það er þvert á móti tekið fram í frv., að frv. nái ekki til búrekstrar.

Mér þykir furðulegt, að hv. þm. skuli um hvert atriðið eftir annað skjóta fram staðhæfingum, sem eru þveröfugar við raunveruleikann. Það sýnir bezt, hvað málstaður þm. er hæpinn.