05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að mér finnst það nokkuð langt seilzt hjá hv. 6. landsk., þegar hann segir, að atvikið með gluggana hafi engan stuðning haft í iðnlöggjöfinni. Það er alveg rétt, að löggjöfin segir ekkert um þetta beinlínis, en þetta atvik er samt sem áður henni að kenna. Hvers vegna gátu þessir menn komið þessu fram? Það er vitanlega af því, að svo er búið um hnútana í löggjöfinni, að það eru svo tiltölulega fáir menn, sem hafa rétt til að vinna þessi verk, að þeir hafa aðstöðu til að beita allskonar kúgunaraðferðum.

Hv. þm. vildi reyna að hrekja það, sem ég sagði, að það ætti sér stað, að iðnnemar væru beinlínis seldir mansali. Í þessu tilfelli, sem ég nefndi, var tilgangurinn ekki annar en sá, að tryggja iðnreksturinn hjá meistaranum, sem keypti. Nemandinn gat vitanlega lært öll sín fræði hjá sínum gamla meistara. Hvaða samband er á milli þess, þó ein verzlun sé seld, og hins. að veita nemanda nauðsynlega fræðslu? Hvað var eðlilegra en að þessi piltur, sem ég benti á, fengi að vera áfram hjá þeim meistara, sem hann var byrjaður að læra hjá? Og ef löggjöfin er eingöngu ætluð til að tryggja, að menn fái sína undirbúningsfræðslu, þá sjá allir, að þetta er gagnstætt tilgangi hennar, að slíkt skuli geta átt sér stað, að menn séu sviptir frelsi á þennan hátt. Það, sem ég hér hefi bent á, er afleiðing iðnlöggjafarinnar, sem vitað er, að í framkvæmdinni er komin út í öfgar.

Um frv. skal ég ekki segja annað en það, að eftir því, sem fram hefir komið í umr., þá virðist þess engin þörf, hvorki frá hálfu hins opinbera eða verkstjóranna, að setja slíka löggjöf sem þessa.