07.03.1939
Neðri deild: 14. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

21. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

*Jón Pálmason:

Fyrri flm. þessa frv., hv. 2. þm. Skagf., er forfallaður, og því verð ég að segja hér örfá orð, til þess að fylgja þessu frv. úr hlaði.

Hv. þdm. munu hafa veitt því eftirtekt, að þetta frv. er, eins og til var ætlazt, árangurinn af starfi þeirrar mþn., sem skipuð var á síðasta Alþ. til þess að undirbúa löggjöf um tilraunir í þágu landbúnaðarins. Tilgangur þessa frv. er að koma föstu skipulagi á starfsemina á þessu sviði og tryggja grundvöllinn undir innlendri búfræðslu. Á undanförnum árum hefir sáralítil innlend búfræðsla verið til. Landbúnaðarkennslan hefir að mestu leyti orðið að styðjast við fræðisetningar, sem aflað hefir verið í öðrum löndum. Þetta hefir, eins og gefur að skilja, orðið til þess, að okkar búfræðsla og búfræði hefir verið á miklu meiri ringulreið en svo, að unnt hafi verið að reka landbúnaðinn á grundvelli þeirrar þekkingar, sem nauðsyn ber til. Á síðustu 30 árum hafa þó víðtækar tilraunir verið gerðar, aðallega á sviði jarðræktarinnar. Og þessar tilraunir hafa orðið undirstaðan að þeim miklu framförum, sem jarðræktin hefir tekið.

Ég skal ekki fjölyrða um nauðsynina á frekari átökum á þessu sviði, því ég ætla, að hv. þdm. sé sú þörf augljós. Hitt getur orkað tvímælis, hvort mþn. hefir hitt á rétta leið til að kerfisbinda starfsemina á þessu sviði.

Fyrsti kafli frv. hljóðar um stjórn tilraunamálanna. Er til þess ætlazt, að þau séu undir yfirstjórn landbrh. og skipi hann tvö tilraunaráð: fyrir jarðrækt og búfjárrækt, og séu fimm menn í hvoru.

Ég skal geta þess, að í 4. málsgr. 4. gr. frv hefir slæðzt inn prentvilla: jarðrækt í stað búfjárrækt. Fleiri prentvillur hefi ég rekið mig á, og verða þær að sjálfsögðu leiðréttar í landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar.

Það er ætlunin, að í tilraunaráðin, sem um getur í frv., verði skipaðir þeir menn, sem hafi. hver á sínu sviði, fræðilega þekkingu til þess að skera úr, hversu víðtæk tilraunastarfsemin skuli vera á hverjum tíma. Frv. gerir ekki ráð fyrir, að kosið verði í tilraunaráðin, að öðru leyti en því, að tveir menn séu tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands í hvort þeirra. Það segir sig sjálft, að mjög þarf að vanda valið á mönnum í þessar stöður, annarsvegar á sviði jarðræktarinnar og hinsvegar á sviði búfjárræktarinnar.

Í 6. og í. gr. frv. er gerð grein fyrir verksviði tilraunaráðanna, og sé ég ekki ástæðu til að skilgreina það frekar en þar er gert.

Annar kafli frv. er um starfsemi landbúnaðardeildar rannsóknarstofnunar Háskóla Íslands. Eins og menn vita, er atvinnudeildin svokallaða tekin til starfa að nokkru leyti, og sérstaklega þeir þættir hennar, sem viðkoma iðnaði og fiskveiðum. Hinsvegar hefir það gengið svo, að sú deild, sem ætlazt er til, að starfi fyrir landbúnaðinn, er að litlu lyti tekin til starfa. Þar hefir starfað aðeins einn sérfræðingur að rannsóknum á jurtasjúkdómum. Rannsókn búfjársjúkdóma hefir aftur á móti verið í höndum rannsóknarstofu háskólans undir forystu próf. Níelsar Dungals, eins og öllum er kunnugt.

Frv. gerir ráð fyrir, að þessar rannsóknarstofnanir séu undir sameiginlegri stjórn, hvernig svo sem skipting starfssviða þeirra á milli verður að öðru leyti hagað.

Í 10. gr. er tekið fram, hvaða verkefni er ætlazt til, að landbúnaðardeild atvinnudeildarinnar hafi með höndum og hve margir sérfræðingar skuli starfa við hana. Hugmyndin er, að fengnir séu menn í þessar stöður eftir því, sem fé er til þess veift í fjárlögum, og eftir því, sem tækifæri gefast að fá menn í þær, sem unnt sé að treysta til að gera þær rannsóknir, sem þarna þarf á að halda. Á því byggist allur árangur þessarar starfsemi.

Þá kem ég að 3. kaflanum, um jarðræktartilraunir. Gert er ráð fyrir, að tilraunastöðvarnar á Akureyri og Sámsstöðum, sem starfræktar hafa verið annarsvegar af Ræktunarfélagi Norðurlands og hinsvegar af Búnaðarfélagi Íslands, verði framvegis reknar á kostnað og undir yfirumsjón ríkisins. Ætlazt er til þess, að starfsemi þessara stöðva verði nokkuð aukin og þeim tryggðir meiri starfskraftar og meira fé en verið hefir.

Það hafa verið uppi háværar raddir um, að komið yrði á fót tilraunastöðvum bæði á Austur- og Vesturlandi, og hefir einnig verið gerð samþykkt um það á búnaðarþingi. Stofnkostnaður slíkra stöðva mun vera allmikill, auk þess sem gera verður ráð fyrir þó nokkrum rekstarkostnaði, og hefir n. þess vegna hallazt að því að fresta stofnun þessara tilraunastöðva.

Fjórði kafli frv. fjallar um búfjárræktartilraunir. Hér á landi hafa engar tilraunir, sem kallazt geti þessu nafni, farið fram, að undanteknum þeim fóðurtilraunum, sem gerðar hafa verið á Hvanneyri. Búfjárræktartilraunir að því er snertir kynbætur og fóðrun eru þó svo mikilvægt atriði, að brýn nauðsyn er á að hefja hér framkvæmdir á því sviði, en undirstaðan undir öllum slíkum tilraunum er vitanlega sú, að hæfir menn og ötulir fáist til verksins.

N. leggur til, að þessar tilraunir verði settar í samband við bændaskólana og þeirra bú. Má ætla, að þetta hafi í för með sér rekstrarhalla á búunum, því slík starfsemi, sem hér er um að ræða, kostar mikla vinnu.

Það leiðir af sjálfu sér, að ekki verður hægt að koma þessari starfsemi í fullan gang nú þegar, heldur verður að fikra sig áfram eftir því, sem fjármagn og starfskraftar leyfa.

Fimmti kafli er um fjárframlög og reikningsskil og kveður svo á, að ríkissjóður leggi fram fé til þessarar starfsemi. Gert er ráð fyrir, að styrkurinn til Búnaðarfélags Íslands og Ræktunarfélags Norðurlands lækki sem svarar þeirri fjárupphæð, sem hefir verið varið til tilraunastarfsemi á þessu sviði undanfarin ár. Inn í þetta koma líka þær fjárhæðir, sem veittar hafa verið til rannsóknarstofu háskólans og atvinnudeildarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara nánar út í þetta mál við þessa 1. umr., nema sérstakt tilefni gefist frá hv. þm., en vil mælast til þess, að frv. verði að lokinni umr. vísað til landbn.