03.04.1939
Neðri deild: 35. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Héðinn Valdimarsson:

Við sósíalistar getum fallizt á brtt. á þskj. 121, en ég vil taka það fram, að í þessum orðum mínum felst engin breyting á afstöðu okkar til málsins í heild. Þá vil ég endurtaka tilmæli mín til hæstv. forsrh., að svara fyrirspurn þeirri, er ég beindi til hans áðan, eða að gera a. m. k. grein fyrir því, hvers vegna hann vilji ekki svara henni.

Þá vil ég aðeins svara hv. þm. G.-K. nokkrum orðum, því sem hann vék að mér. Hann sagði, að ég hefði lengi verið þeirrar skoðunar, að krónan ætti að falla. Það er eins og þeir þm., sem eru fylgjandi frv., áliti það mál út af fyrir sig, hvort krónan eigi að falla eða ekki. Hitt virðist vera aukaatriði, hvort þess sé þörf. Það, sem verið er að gera hér, er að fella krónuna án rannsóknar um það, hvert sé hið rétta verð hennar. Erlendis er þessu hagað á allt annan veg en hér. Þar er sú venja, að ríkin taka upp skuldir sínar og athuga, hvað þau geti borgað af þeim, og miða svo verð peninganna við hinn raunverulega kaupmátt þeirra. Auk þess hafa þau gengisjöfnunarsjóði til þess að tryggja það, að hið ákveðna verðgildi peninganna haldist án verðsveiflna. Ekkert af þessu er gert hér. Verð peninganna hangir hér aðeins á þingvilja lítils meiri hl., sem engan þjóðarvilja hefir að baki sér.

Þá er og ekki verið að athuga það hér, hver áhrif verðfelling krónunnar hefir á lánstraust þjóðarinnar erlendis. Á þá hlið málsins er ekki litið, frekar en hún væri ekki til. Það er ekki verið að líta á það, þó að gengisbreytingin hafi þær afleiðingar, að allir þeir mörgu, sem hingað hafa lánað fé, utan hinna föstu lána, forðist okkur hér eftir eins og pestina.