14.03.1939
Neðri deild: 19. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3057)

31. mál, eignarnám lands í Ölfusi til nýbýla

*Eiríkur Einarsson:

Mér finnst það virðingarvert, að hv. 1. flm. frv. vill gæta þess, að ekki sé þröngvað kosti þeirra, sem fyrir eru á jörðum þeim, sem eru á svæðinu, sem um er að ræða eignarnámsheimild á, meira en svo, að þeir fái að njóta sín sem bezt eftir sem áður, þó að umrætt eignarnám færi fram. En ég held satt að segja, þegar nánar er á málið litið, að þegar búið væri að sneiða af þessum jörðum samkv. till. með þessu frv., hlyti það að koma í ljós, að ábúendum þeirra mundi varla þykja vistin á þeim æskileg, án sérstaklega aukinnar ræktunar fram yfir það, sem nú er: a. m. k. efast ég mjög um það, að þeim muni þykja það. Ýmsar af þessum 8 jörðum, sem hér koma til greina, eru ekki svo kostamiklar jarðir né stórar á íslenzkan mælikvarða, að þær þyldu mikla skerðingu á landareigninni, án þess að slíkt skerti óhjákvæmilega um leið bústofn og afkomumöguleika á þeim, miðað við það, sem nú er. Ég geri ráð fyrir, ef land þessara jarða væri t. d. 200 ha. hverrar fyrir sig, og ef tekið væri annað hundraðið af þeim, væru þær ekki kostamiklar, dálítill túnblettur og eitthvað af útengi þar í kring. Ég gæti hugsað mér, að það svaraði ekki kostnaði að fara að taka landsvæði þarna til samvinnubyggðaræktunar, nema heildarsvæðið væri tekið.

Ég álít, að það sjónarmið, að þessir ábúendur eigi að fá að vera óáreittir, megi ekki ráða gagnvart hinu, sem eftir eðli sínu á að mega sín meira. Ég bendi á þetta til athugunar fyrir landbn., sem fær málið til meðferðar, að ég held, að jarðirnar þarna séu ekki stærri en svo, að þegar búið er að helminga þær í sundur, verði vafasamt, hvort ábúendum þyki lífvænlegt að búa á þeim eftir það.