14.03.1939
Neðri deild: 19. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

31. mál, eignarnám lands í Ölfusi til nýbýla

*Sveinbjörn Högnason; Það er aðeins eitt atriði, sem komið hefir fram í umr.; sem ég vildi gera við aths. Andmælendur frv. hafa talað um, að jarðir þær, sem hér um ræðir, séu svo landlitlar, að það sé varla gerlegt að taka lönd af þeim. Þetta segja þeir jafnframt því, sem þeir upplýsa, að þessar 8 jarðir muni vera um 60 hundruð að jarðardýrleika hver. Þá vil ég benda á, eins og hv. 1. flm. drap á, að það mun vera einsdæmi, að það séu saman það margar jarðir, sem hafa svo hátt jarðarverð. Þegar maður flettir jarðamatsbókinni, þá eru það tiltölulega fáar jarðir sem fara upp fyrir þennan dýrleika. Það er þess vegna bersýnilegt, að hér eru einstök skilyrði til þess að taka land. sem er vel fallið til ræktunar, og rækta það. Ég er sannfærður um, að hvar sem borið væri niður í sveitum hér á landi, þá muni eigendurnir telja, að þeir hafi of lítið land. Það munu vera fáir bændur, sem óska eftir að losna við það land, sem þeir eiga. Það er þess vegna sú spurning, sem kemur skýrt fram í sambandi við þetta frv., hvort það eigi að fallast á, að einkaeign á landi geti staðið í vegi fyrir því, að landið sé ræktað og numið. Það er álit okkar, sem stöndum að flutningi þessa frv., að það eigi ekki að vera, og það sé framtíðinni hollast, að slíkt sé ekki látið standa í vegi fyrir aukinni byggð. Það er getið, að einkahagsmunir standa í vegi, hvar sem borið er niður. En það er sjáanlegt hverjum manni, sem lítur á málið frá heildarinnar sjónarmiði, að almenningsheill verður að standa ofar einkahagsmunum.

Ég fyrir mitt leyti get búizt við og mun stuðla að því, að flutt verði þáltill., sem fer fram á rannsókn á því, hvar hentugast væri á öðrum stöðum að taka land í svipuðu augnamiði. Mér kemur í því sambandi í hug land í Holtum, en þar eru góð ræktunarskilyrði og langt frá því að byggðin sé svo þétt þar sem hægt væri að hafa hana. Það mun sjálfsagt vera hægt að tvöfalda byggðina þar.

Ég vildi þess vegna óska, að sú n., sem fær málið til athugunar — en það verður landbn. —, reyndi fremur að víkka þessa heimild heldur en að þrengja hana.