16.03.1939
Neðri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

33. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Þetta frv. er að vísu í nokkrum greinum, en meginefni þess er þó innifalið í 2. gr., og að nokkru í 8. gr., síðustu gr. frv. Síðan l. um alþýðutryggingar gengu í gildi, hafa oftar en einu sinni borizt tilmæli frá heimavistarskólum úti um land, þar sem ekki eru sjúkrasamlög, um að skólasamlög yrðu viðurkennd og þeim veittur ríkisstyrkur. Samkv. l. frá 1933 var ríkisstj. heimilað að lögskrá sjúkrasamlög fyrir skóla, en samkv. alþýðutryggingarlögunum er ekki heimilt að styrkja slík samlög, heldur eru þau stofnuð eftir þar til settum reglum. Það er enginn vafi á því, að bið verður á, að almenn sjúkrasamlög verði stofnuð til sveita, en ýmislegt mælir með því að heimila starfsemi skólasamlaga, þar til svo er komið. Skólafólk þarf að leggja á sig kostnað vegna námsins og er því enn verr við því búið en margir aðrir að taka á sig sjúkrakostnað. Í öðru lagi er sýkingarhætta meiri þar, sem skólar eru, vegna fjölmennisins. Einnig tel ég, að þetta gæti orðið til að útbreiða sjúkratryggingastarfsemi yfirleitt og því rétt að verða við þessum tilmælum.

Ég skal geta þess í sambandi við 3. málsl. 2. gr., um að lágmarksmeðlimatala skólasamlaga skuli vera 40, að ég tel, að sú tala sé í lægsta lagi, og hygg ég, að hættulaust mundi vera, þó að hún yrði 50, því að eins og sjá má af skýrslunni um nemendafjölda í skólum landsins, sem prentuð er sem fskj. með frv., yrði munurinn ekki ýkjamikill.

Annað atriði, sem máli skiptir í frv., er síðari málsgr. 8. gr., um gjaldskyldu sjóðfélaga í eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands og Útvegsbankans. Samkv. 49. gr. l. er ákveðið, að meðlimir viðurkenndra eftirlaunasjóða skuli fá frádrátt, sem nemi meðlimagjaldi til Lífeyrissjóðs Íslands á þeim stað, sem sjóðurinn starfar. Það liggur í augum uppi, hver afleiðingin yrði af að undanþiggja starfsmenn bankanna frá lífeyrissjóðsgjaldi. Tekjur sjóðsins byggjast, nefnilega ekki aðeins á iðgjöldum, heldur líka á álagi á tekjur manna. Síðan sjóðurinn var stofnaður, hefir fullur helmingur teknanna verið tekinn með skattálagi. Verði nú sú stefna ofan á, að þeir, sem hafa hærri tekjur en almennt gerist, geti myndað eftirlaunasjóð, er bersýnilegt, hvílíkum ruglingi það mundi valda í tryggingarmálunum. En ég fæ hinsvegar ekki séð, hvernig hægt væri að neita t. d. starfsmönnum Eimskipafél. eða starfsmönnum Reykjavíkurbæjar um sömu undanþágu og starfsmönnum Landsbankans er veitt.

Nokkrir eftirlaunasjóðir hafa þegar fengið staðfestingu, t. d. sjóður prentara.

Í áætlun n., sem samdi frv., er meðaliðgjald reiknað kr. 12,50 samanlagt, persónuiðgjald og skattálag, en persónuiðgjald 6 kr. Hér er því um litlar upphæðir að ræða, og á öllum þorra starfsmanna yrði lítið, sem munaði.

Ég vil að lokum leggja til, að frv. verði vísað til allshn.