16.03.1939
Neðri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3062)

33. mál, alþýðutryggingar

*Eiríkur Einarsson:

Ég vildi aðeins í byrjun málsins drepa á atriði, sem felst í 8. gr. frv. Fyrst og fremst vil ég segja það, að mér finnst það undarleg og þrákelknisleg ráðstöfun af flm. að vilja einmitt færa það lagaákvæði úr skorðum, sem að áliti meiri hl. Alþ. var fært til réttari vegar. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni, að hvað snertir eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands, þá er ekki þar um slíkan lífeyrissjóð að ræða, sem þeir séu frjálsir til samninga um. Hann er frá því er bankalögin voru samin 1928, og starfsmenn hafa þar ekkert um að segja. Þess vegna er það ekki á valdi þeirra að láta vilja sinn í ljós. Þeir hafa ekki samningsaðild, heldur verða þeir að hlíta landslögum. Að því er snertir t. d. Útvegsbankann og hans starfsmenn er þar ekki sama máli að gegna, þar sem þar er ekki lögbundin lífeyrissjóðsgreiðsla, heldur sérákvörðunarmál stofnunarinnar. og er þá auðveldara að breyta til.

Ég vænti fastlega, að hv. n. komist að þeirri niðurstöðu, að hér sé um sanngirnismál að ræða fyrir Landsbankann, og afgreiði frv. í samræmi við það.