22.03.1939
Neðri deild: 24. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3080)

44. mál, vitabyggingar

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Það er eins ástatt með þetta mál og það næsta á undan (frv. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt), að það hefir verið tvisvar áður fyrir þessari hv. d. Ég get þess vegna einnig sparað að hafa mörg orð um þetta mál við 1. umr.

Á síðasta þingi var þetta frv. afgr. frá þessari hv. d., en hv. Ed. vannst ekki tími til að ganga frá því. Nú er frv. lítilsháttar breytt frá því, sem áður var. Það var upphaflega borið fram fyrir tilmæli Farmannasambands Íslands. Nú hefi ég gert á því þær breyt., sem nauðsynlegar voru vegna þeirra breyt., sem orðið hafa á vitum síðan það var fyrst flutt. Ég hefi borið mig saman við vitamálastjóra um öll atriði frv., og er það flutt í þessari mynd í samráði við hann.

Á síðasta þingi tók frv. nokkrum breyt. hér í d. Voru þær að sönnu ekki fyrirferðarmiklar, en þó við aðalkjarna málsins. 2. gr., sem er um það að fella niður úr l. um vitamál þann varnagla, sem svo hljóðar, að vitagjöldin skuli ganga til vitabygginga, ef ástæður ríkissjóðs leyfa, var felld niður. Nú er það lagt í sjálfsvald ríkisstj., og þá sjálfsagt einkanlega fjmrh., að ákveða, hvenær ástæður ríkissjóðs leyfa, að þessum gjöldum verði varið til vitamála eingöngu. Og reynslan er sú, að fjmrh. mun ætíð líta svo á, að þrátt fyrir það, að fjárhagur ríkisins er sífellt sagður prýðilega góður, leyfi ástæður ríkissjóðs ekki, að vitagjöldin gangi óskert til vitamálanna. Um það verður ekki deilt, að þegar l. voru upphaflega sett um vitabyggingar og vitagjöld, var til þess ætlazt, að vitagjöldin gengju til vitamálanna, þannig að það, sem afgangs yrði, þegar rekstrarkostnaður væri frá dreginn, rynni til nýrra vita. Öllum er kunnugt, að strandlengja Íslands er geysilega hættuleg og alllöng. Hún er hættuleg siglingum vegna grynninga og skerja, og vitanetið kringum landið er enn afargisið, sem eðlilegt er, því það er tiltölulega stutt síðan fyrstu vitarnir voru reistir hér. Og það, sem til þessa hefir gengið árlega til byggingar nýrra vita, er ákaflega lítið, og hefir það sumpart stafað af tómlæti í þessum málum og sumpart af því, að klipið hefir verið af vitagjaldinu til almennra þarfa ríkissjóðs. Þetta hefir aukizt smátt og smátt, og það vitagjald, sem þannig hefir gengið til óskyldra verkefna, er nú orðið um 1 millj. kr. Þeir menn, sem sigla hér við land, telja þetta óviðunandi og algerða misnotkun á vitagjaldinu. Og ég held, að í hvert skipti, sem slys verður hjá sjófarendum, rifjist upp fyrir manni, að öryggismálin eru ekki svo vel á veg komin fyrir siglingar hér við land sem vera þyrfti. En einn þátturinn í þessu öryggi er að hafa fullkomið vitakerfi. Þegar miðað er við strandlengju Íslands, eins og hún er, þegar farið er inn í hvern fjörð og hverja vík og út fyrir öll andnes, eru yfir 40 km til jafnaðar á milli vita, þótt taldir séu allir smæstu vitarnir og einnig þeir, sem bæjar- og sveitarfélög starfrækja. Hér þarf sýnilega umbóta við, því ofan á þetta bætist, að mestur hluti vitanna er smávitar, sem lýsa skammt. Að þessu athuguðu, hvað vitabyggingar eru stutt á veg komnar, hvað siglingar umhverfis landið eru hættulegar og slys þar tíð, held ég, að hv. þm. hljóti að ganga inn á, að þar til þessum málum er betur á veg komið, sé sjálfsagt að láta allan þann afgang, sem verður af vitagjöldunum, þegar rekstrarkostnaður vitanna hefir verið dreginn frá. ganga til byggingar nýrra vita.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um 3. gr. frv., sem er vitaskráin. Hún er sett hér í samráði við vitamálastjóra. Vitanlega getur það komið — og kemur sjálfsagt — til mála að bæta þar við vitum, en það þarf ekki að raska því, sem hér er upp tekið.

Ég vil svo óska eftir því, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.