16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Fram. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Ég hefi skýrt tilgang þessa frv. í grg. þess, og skal ekki endurtaka það, sem þar er sagt.

N. sú, sem fjallaði um málið, sjútvn., hefir, eins og sjá má á þskj. 399, komizt að þeirri niðurstöðu, að málið væri svo mikilsvert, að rétt væri fyrir þingið að afgreiða það sem lög. En þar sem þetta er nýtt mál, og eins og fram er tekið í grg., liggur engin reynsla á bak við það, sem geti skorið úr um það, hvaða form myndi vera heppilegast til þess að koma þessum tryggingum á, þá hefir orðið nokkur skoðanamunur á þessu atriði. Þó hefir n. sýnzt að standa að brtt. á þskj. 446, sem að sönnu er ekki stórvægileg, en aðalbreyt. er sú, að tryggingarsjóði hvers sveitarfélags skuli haldið sérstökum í aðalsjóðnum. Við brtt. n. hafa svo 2 nm. gert brtt. á þskj. 447, og ég skal ekkert rekja það í smáatriðum, en aðeins taka það fram, að kjarni þessara brtt. er sá, að þessar tryggingar skuli vera frjálsar, en ekki skyldutryggingar.

Við 3 af nm. höfum ekki talið, að þetta myndi vera heppilegt fyrirkomulag, og við höfum byggt okkar skoðun á því hvað það snertir að hafa þetta frjálsar tryggingar, að við höfum ekki trú á því, að aðrir myndu sæta þessu en þeir, sem þegar hafa komizt í þann vanda að verða að tryggja aflahluti. Það er afarhætt við því, að þeir, sem ekki hafa verið brenndir á þessu soði. myndu hliðra sér hjá þessu í lengstu lög og hugsa sem svo, að þetta væru útgjöld, sem bezt væri að koma sér hjá á meðan unnt væri.

Við þekkjum það, að það er dálítið erfitt að fá menn til þess að tryggja sig fyrir hverskonar óhöppum, nema þeir séu til þess hvattir af öðrum eða atvikin neyði menn til þess. En þegar tryggingin er komin á, þá undrast menn, að þetta skuli ekki hafa orðið fyrir löngu síðan.

Um nauðsyn þessa máls er enginn ágreiningur. Allir vita, að misæri er svo mikið við sjávarsíðuna, að stundum er þar ausið upp miklum auði, svo að þeir, sem þar að vinna, fá svo að segja fullar hendur fjár. En á öðrum tímum er það svo, að menn ekki aðeins berjast í bökkum, heldur tapa á fáum árum öllu, sem áður hefir aflazt, og það sem verst er, menn tapa oft miklu meira og verða öreigar. Þeir, sem atvinnuna eiga að hafa, komast í hin mestu vandræði. Það er því hvergi meiri nauðsyn að koma á tryggingum en í þessum atvinnuvegi.

Um hitt atriðið, sem nokkur skoðanamunur hefir orðið um, hvort þessar tryggingar eigi að vera allar undir einni stjórn, eða sjóðirnir eigi að vera heimasjóðir, þarf ekki að fjölyrða, því um þetta er ekki mikill ágreiningur. Því var hreyft af nokkrum nm., að eðlilegt væri, að sveitirnar sæju sjálfar um sjóðina. Ég hefi fyrir mitt leyti lagt áherzlu á, að sjóðirnir væru í öruggri geymslu, geymdir í banka og væru alltaf tiltækilegir, þegar úr þeim þyrfti að greiða.

Ég er hræddur um, að það gæti komið fyrir, ef sjóðirnir væru í vörzlum heimamanna, að þá kynnu augnabliks þarfir að verða þess valdandi, að til þeirra væri gripið til annars en ætlazt er til með 1. Ég tel þess vegna langöruggast, að sjóðirnir séu allir undir einni stjórn, sem þingið kýs.

Ég býst við, að 2 nm. úr sjútvn. muni gera grein fyrir brtt. sínum við brtt. n., og skal því ekki fara út í þær meir. Ég vænti þess, að málið fái greiða afgreiðslu, svo það geti orðið að l. á þessu þingi. Það er mikilsvert fyrir þetta mál, að það geti orðið að l. í árferði, þegar líklegt er, að aflahlutir manna geti orðið háir, svo útgerðarmenn og sjómenn séu færir um að greiða í sjóðina. En það væri allt að því rothögg, ef fyrsta árið, sem l. væru í gildi, væri aflaleysisár, sem krefði styrkja úr sjóðnum, en gerði mönnum erfitt að klípa af hlutum sínum til þess að leggja í sjóðina. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á, að hv. d. flýti fyrir málinu. svo það geti orðið að l. á þessu þingi.