18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3092)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Skúli Guðmundsson:

Ég geri ekki ráð fyrir, að aðrir þdm. en hv. 6. þm. Reykv. hafi getað fengið það út úr ræðu minni, að fjvn. ætti að ráða afgreiðslu fjárl. En öllum ætti þó að vera ljóst, að meiri trygging er fyrir því, að fé verði veitt, ef nefndin tekur það upp í sínar tillögur. Ef hv. 6. þm. Reykv. hefir annað ráð betra til að koma framlaginu á fjárlögin, þá er óskandi, að hann kæmi með það. Og það þarf ekki að koma neinum á óvart, þótt ég og fleiri viljum ekki afgreiða þetta mál, nema gert sé ráð fyrir útgjöldunum, sem af því stafa, í fjárlögum. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ég væri málinu andstæður og hefði spillt því við 2. umr. Þetta er alrangt. Ég tel rétt að koma á hlutatryggingum og er viss um, að frv. verður vinsælla fyrir breytinguna. Nú er svo komið, að menn eru ekki skyldugir til að leggja fé í tryggingarsjóð, heldur gera þeir það af frjálsum vilja og fá þá styrk úr ríkissjóði. Ég er sannfærður um, að þetta er heppilegasta lausn á málinu til að byrja með og eins og nú stendur á. En frv. get ég ekki greitt atkv. mitt við 3. umr., nema trygging sé fyrir því, að fjvn. vilji taka útgjöldin upp í till. sínar. Og meðan svo er ekki, vil ég mælast til þess, að málið verði tekið af dagskrá.