18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3103)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Finnur Jónsson:

Ég vil út af þeim ákúrum, sem hv. 6. þm. Reykv. hefir haft hér í frammi við hv. þm. Barð. og hv. þm. V.-Húnv., benda á, að þeir hafa eins og aðrir nm. óbundnar hendur um þetta frv., og vísa ég þar til nál. á þskj. 399, þar sem tekið er fram, að fylgi einstakra nm. sé því bundið, hverja afgreiðslu brtt. fengju hér í d., og um það, hvort samkomulag yrði í Sþ. um að taka upp í fjárlög þau útgjöld, sem samþykkt frv. hefði í för með sér. Ég held því, að það sé ekki rétt af hv. 6. þm. Reykv. að vera að bera meðnm. sínum illan hug og ódrengskap á brýn, þótt þeir beri fram þessa brtt. Hitt er annað mál, hvort þessi till. er rétt og hvort hv. þdm. vilja samþ. hana eða ekki.

Ég er ekki allskostar ánægður með þetta frv. eins og það er orðið. Ég álít eins og hv. 6. þm. Reykv., að miklu meiri líkur væru fyrir, að frv. kæmi að fullum notum, ef tryggingin væri lögboðin heldur en að hafa hana frjálsa, eins og till. hv. þm. V.-Húnv. fól í sér. Ég held, að þessar tryggingar, eins og allar aðrar tryggingar, nái svo bezt tilgangi sínum, að sem flestir séu þar þátttakendur. Eins og hv. þm. Snæf. veit, þá varð það mikið ágreiningsmál milli Alþfl. og Sjálfstfl. á sinni tíð, þegar alþýðutryggingalögin voru samþ., hvort tryggingarnar skyldu vera frjálsar eða lögfestar, og ég geri ráð fyrir, að þótt það væri einu sinni einhuga afstaða Sjálfstfl. að vera með frjálsum tryggingum, þá sé reynsla alþýðutrygginganna búin að leiða í ljós, að sú afstaða hafi ekki að öllu leyti verið rétt, og a. m. k. nokkur hluti Sjálfstfl. er nú búinn að sannfærast um það af reynslunni, að einmitt afstaða Alþfl. um lögþvingaðar tryggingar væri sú rétta. Ræð ég þetta af því, að hv. 6. þm. Reykv., sem vissulega telst til Sjálfstfl., hefir komið með frv. um lögþvingaðar tryggingar, að vísu ekki alþýðutryggingar, heldur hlutatryggingar sjómanna.

Hv. þm. Snæf. var nokkuð stórorður út af því. að verið væri að bana frv. með því að bera fram till. um, að þessi ákvæði kæmu ekki til framkvæmda nema fé væri veitt til þess í fjárlögum. Nú hefir þessi hv. þm. nýlega borið fram frv. hér á Alþingi um hafnargerð í Stykkishólmi, og eins og venja er til í slíkum f., þá er það tekið fram, að verkið skuli framkvæmt, þegar fé sé veitt til þess í fjárlögum. Geri ég ekki ráð fyrir, að hann hafi gert það í illum tilgangi við sitt kjördæmi að láta þetta algenga ákvæði vera í frv. því, sem hann hefir borið hér fram.

En þó að ég líti svona augum á þetta mál, þá ætla ég mér að greiða atkv. á móti brtt. hv. þm. Barð., af þeirri ástæðu, að ég tel, að með því að samþ., frv. hér í d., þá láti d. vilja sinn í ljós um, að hún ætlist til þess, að fjárveiting til þessara hluta verði tekin upp í fjárlög. Og þótt ég sé, eins og ég sagði, ekki allskostar ánægður með frv., þá tel ég þetta svo merkilegt mál, að ég mun fylgja því fram, þó að á því hafi nú verið gerðar breyt., sem ég tel til hins verra.

Með því móti, að þetta sé frjáls trygging, eins og gert er ráð fyrir í frv., þarf varla að búast við, að þetta hafi ákaflega mikil útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð á næsta ári.

Ég tel fullkomlega réttmætar þær aths., sem fram hafa komið um, að eigi sé rétt að hafa mikið af lögboðnum greiðslum utan fjárl. En hinsvegar tel ég. að ef þetta frv. á annað borð verður samþ. hér í báðum d., þá hljóti að verða vilji fyrir að taka nú upp í fjárl. þá útgjaldaupphæð, sem samþykkt þessa frv. hefir í för með sér úr ríkissjóði.