18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (3105)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Pétur Ottesen:

Ég gat ekki verið viðstaddur 2. umr. þessa máls, en þá voru samþ. nokkrar breyt. á frv. En ég vil taka undir það, sem hv. þm. Snæf. sagði um þær breytingar, að ég tel þær til bóta á frv., því að ég lít svo á, að okkar tryggingarstarfsemi eigi að byggjast á sem frjálsustum grundvelli.

Það hefir verið talað um afstöðu einstakra flokka, og þá einkum Sjálfstfl., til löggjafarinnar um alþýðutryggingar. Það er rétt, að meiri hluti þess flokks leit svo á, að lögþvinguð trygging, sem þessi löggjöf var reist á, væri ekki heppileg lausn þeirra mála. Reynslan af alþýðutryggingunum hefir sýnt, að betra hefði verið að byggja þær á frjálsum grundvelli, og hefir þannig stutt þá skoðun meiri hl. Sjálfstfl. Mér er það því sérstakt gleðiefni, að komið hefir greinilega fram í þessari till., sem flutt er af 2 framsóknarmönnum, að þeir hafa tekið undir þessa afstöðu sjálfstæðismanna. En ég sé ekki, að nokkurt ósamræmi sé milli þessarar till. og hinnar skrifl. brtt. hv. þm. Barð., sérstaklega þegar miðað er við þær kringumstæður, sem nú eru, að mjög er óvíst um alla afkomu. Tel ég því alveg sjálfsagt á svona tímum, að afgreiðsla l., sem fela í sér útgjöld fyrir ríkissjóð, sé bundin slíku ákvæði. Álít ég, að betra sé að búa þannig um hnútana strax en að þurfa að skera niður fjárframlög til framkvæmda laganna undir eins og búið er að ganga frá löggjöfinni, eins og við höfum orðið að gera á undanförnum árum. Hinn svokallaði bandormur — en það hefir ekki þótt nógu virðulegt heiti og er af sumum kallaður höggormur, — er ekkert annað en löng runa af till. um niðurskurð vegna ýmissa laga, vegna þess að framkvæmdirnar hafa verið of fjárfrekar. Þetta er ekkert nýtt; við höfum á undanförnum árum orðið að draga úr framkvæmdum vegna fjárhagsörðugleika, hvað þá nú, þegar öll fjárhagsleg afkoma er í óvissu.

Ég mun því greiða atkvæði með brtt. og tel ekki, að hún sé í minnsta ósamræmi við breyt. þær, sem samþ. voru á laugardaginn.