04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

65. mál, dómkirkjan í Reykjavík og fjölgun sókna og presta í kaupstöðum

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Þetta frv. hefir verið flutt hér tvisvar áður á Alþingi, 1935 og 1936, en í hvorugt skiptið útrætt. Það var upphaflega undirbúið af kirkjuráðinu og hefir verið athugað og mælt með því bæði af prestum dómkirkjusafnaðarins og fleirum, sem hlut eiga að máli, svo sem biskupi landsins.

Þegar frv. kom hér fram 1935 og 1936, fylgdi því ýtarleg grg., sem ég hefi ekki hirt um að láta prenta með því nú, en aðeins vísað til hennar fyrir þá, sem vilja kynna sér málið nánar. Nú er málið flutt fyrir tilmæli biskups. Ég taldi mér skylt og ljúft að verða við því sem þm. Reykv. og meðlimur dómkirkjusafnaðarins í Reykjavík.

Frv. er ákaflega einfalt. Aðalefni þess er, að ríkið afhendi söfnuðinum í Reykjavík kirkjuna til meðferðar. vitanlegt er það, að fyrir höndum er mikill kostnaður við kirkjubyggingu, af því að kirkjan er orðin mikils til of lítil fyrir þann mikla fjölda, sem er í dómkirkjusöfnuðinum.

Eins og sést á frv., er annað höfuðatriði þess það, að fjölgað sé prestum í Reykjavík. Gert er ráð fyrir, að þeir verði 4. Eftir þeim mannfjölda, sem nú er í dómkirkjusöfnuðinum, ættu prestarnir að vera 4 eða 5. Er vitanlegt, að því mundi fylgja mikill kostnaður, ef ríkið ætti að byggja hér 3 kirkjur í viðbót, en hér er farið fram á mjög hóflegt framlag frá ríkinu, því að lagt er til, að um leið og ríkið er losað undan þeirri kvöð að byggja kirkjurnar, þá greiði það til safnaðanna 300 þús. kr. á 30 árum.

Nú þegar hafa tveir prestar verið kvaddir til aðstoðar þeim reglulegu þjónandi prestum við dómkirkjuna hér. Er því líklegt, að prestum yrði ekki fjölgað, heldur aðeins að Reykjavík yrði skipt í prestaköll og kirkjur reistar.

Ég held, að ekki verði ágreiningur um, að sá mikli mannfjöldi, sem er hér í Reykjavík, muni þurfa þess eins og menn annarstaðar á landinu að hafa kirkjur og klerka í samræmi við mannfjölda og víðáttu, og er ætlazt til samkv. þessu frv., að venja sé að ætla hverjum presti um 5000 safnaðarmeðlimi. Ég geri ekki ráð fyrir. að hægt verði að fylgja þessu nákvæmlega, því menn sjá ekki svo fyrirfram, hver fjölgunin eða fækkunin verður. Þéttbýlið er mest um miðbik bæjanna, þegar þeir eru litlir, en þegar verzlunin vex, þá færist byggðin í úthverfin, og er það einnig byrjað hér. Þetta er framtíðarmál, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. finnist skylt að stuðla að því, að þetta fyrirkomulag geti orðið.

Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti vísa þessu máli til 2. umr. og menntmn.