14.04.1939
Neðri deild: 40. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (3138)

72. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er ekki til þess að lengja umr., að ég stend upp, heldur er það einungis vegna þess, að tilefni gafst til þess af hv. þm. N.-Ísf. Mér heyrðist á hv. þm., að hann hefði haft tal af öllum, sem hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum — ekki aðeins í N.-Ísafjarðarsýslu, heldur öllum hinum mörgu hlutaðeigendum kringum allt land. Mér þykir ekki líklegt, að hv. þm. hafi talað við alla þá, sem í bjarg fara í hans kjördæmi, og ég veit, að á Suðurlandi hefir hann ekki haft nein tök á því.

Það er misskilningur hjá hv. þm. — sem að vísu skiptir litlu máli —, að hann hafi komið af stað nokkru róti um þetta atriði, sem hér em ræðir. Ef á að fara út í mannjöfnuð í sambandi við þetta, vil ég geta þess, að það er skjallega upplýst, að þetta er frá öðrum þm. komið, sem sé þm. V.-Sk. varð það að samkomulagi milli mín og deildarstjóra slysatrygginganna, að láta 25 kr. gjaldið á viku ekki koma til framkvæmda, þar sem vitanlegt er, að mönnum er gersamlega ókleift að greiða svo hátt tryggingargjald, og mundi af því leiða, að þessi atvinnugrein legðist niður. Í framkvæmdinni hefir þetta gjald því verið mildað niður í 6 kr. á viku. Og upp úr þessu, eftir 2–3 ára umkvartanir hér við Suðurland, hefir verið gengið inn á að breyta reglugerðinni þannig, að sigmenn greiði eftir sem áður 25 kr. á viku, en aðrir ekki nema 3 kr. En það má segja, að þetta fullnægi ekki því, sem hér er um að ræða, þar sem það er vitað, að slys verða einmitt ekki á sigmönnum. Það er reynsla fyrir því, að þeir eru allra manna öruggastir. Slys henda aðallega aðra menn hér á landi, sem sé þá, sem fara bandlausir í björg við eggja- og fuglatekju. Það hefir einnig komið fyrir, að menn, sem sitja undir, hafi steypzt ofan fyrir. Enn er því ekki fullnægt því réttlæti, sem á að vera, að ekki þurfi að greiða hærra gjald fyrir sigmenn heldur en þá menn, sem stunda hin áhættumestu störf, eins og líka l. og reglugerðin bera með sér. Þetta ákvæði um 25 kr. gjaldið er óskiljanlega komið inn. Það er t. d. tekið margfalt minna gjald fyrir kafara en sigmenn, og þó er kafarastarfið, að dómi vitnisbærra manna, hið hættumesta starf, sem þekkist, við lönd. Það er ekki tekið hærra gjald fyrir þá en undirsetumenn, sem aðstoða við bjargsig. En það er fullvíst, að sigmennirnir sjálfir eru tiltölulega öruggir, enda upplýst, að slys í björgum hafa ekki orðið á sigmönnunum. Er því full þörf á að taka þetta atriði til yfirvegunar, og er vel, að málið skuli vera komið fram, enda þótt breyt. til bóta hafi orðið á reglugerðinni, eins og ég gat um; en betur má, ef duga skal.

Hitt atriðið, sem frv. fjallar um, er líka mjög athugunarvert, og er það til hagsbóta fyrir þá, sem í smáum stíl stunda sjóróðra hér við land. Eftir gömlu slysatryggingarl. var þessum mönnum frjálst að tryggja róðrarbáta sína fyrir viku og viku, og þau l. voru yfirleitt svo fullkomin, að þeim þurfti ekki að breyta, og voru þau skemmd með því að setja þau inn í núv. tryggingarl. Það er alkunnugt, að það er rétt með höppum og glöppum, að róðrarbátum gefur á sjó, og er því óhæfilegt að taka fullt gjald af slíkum bátum. — Finnst mér vel til fallið, að þetta mál verði athugað í n.