06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (3150)

93. mál, skattfrelsi h/f Eimskipafélags Íslands

Skúli Guðmundsson:

Í grg., sem fylgir þessu frv., er getið um bréf, sem ég sem þáv. atvmrh. skrifaði stjórn Eimskipafélags Íslands 3. nóv. 1938, en bréf þetta var svar við málaleitan frá stjórn félagsins um stuðning við félagið, ef það léti byggja nýtt skip til farþega- og farmflutninga. Í þessu bréfi ráðuneytisins voru gefin fyrirheit um meðmæli til Alþ. fyrir slíkum stuðningi, ef fullnægt væri vissum skilyrðum af hálfu félagsins. En þau skilyrði voru m. a. að félagsstjórnin gæti lagt fram áætlun um yfirfærslu skipsverðsins, sem væri framkvæmanleg að áliti ríkisstj. og gjaldeyrisnefndar.

Í grg. þessa frv., sem hér liggur fyrir, og einnig í ræðu hæstv. atvmrh., sem hann flutti hér um þetta mál, kom það fram, að hann telur, að Eimskipafélag Íslands hafi fullnægt þeim skilyrðum, sem sett voru í þessu bréfi ráðuneytisins. En ég er þar á annari skoðun en hæstv. ráðh. Stjórn Eimskipafélags Íslands sendi ríkisstj. að vísu á sínum tíma — og áður en ég fór úr stj., — áætlun um lántökur erlendis, í sambandi við þessi fyrirhuguðu skipakaup. En henni fylgdi engin greinargerð af hálfu félagsins um það, hvernig stjórn þess hugsaði sér yfirfærslu á afborgunum og vöxtum til greiðslu af þessum lánum. Stjórn félagsins hafði ekki heldur, þegar ég fór úr ríkisstj., leitað til gjaldeyris- og innflutningsnefndar og borið undir nefndina áætlanir um yfirfærslu á skipsverðinu né fengið neina umsögn frá nefndinni um málið.

Ég tel því langt frá því, að settum skilyrðum hafi verið fullnægt af hálfu félagsins, og án þess að fara út í frekari umr. um málið á þessu stigi, þá vildi ég skýra frá þessum skilningi mínum áður en málið fer til n., svo að þingn., sem fær þetta mál til athugunar, geti einnig athugað þetta atriði, því að ég geri fastlega ráð fyrir. að hæstv. ráðh. ætlist til, að málið fari til n.