09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (3158)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Flm. (Héðinn Valdimarsson) :

Þetta frv. er flutt af þm. Sósíalistafl. og er um breyt. á l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi frá 4. apríl 1939. Frv. snertir ekki ákvæðin um sjálfa gengisskráninguna, og vil ég því ekki fara nánar út í það atriði. Aðeins vil ég geta þess, að ég álít, að það hefði mátt hafa þau á allt annan og betri veg.

Aðaltilgangur lagasetningar þessarar hefir áreiðanlega verið sá, að koma því til leiðar, að kaup verkafólks og bænda gæti ekki hækkað að sama skapi og dýrtíðin.

Því hefir verið haldið fram af hæstv. viðskmrh. í sambandi við annað mál, að dýrtíðin hafi lítið aukizt vegna gengislaganna. Það er að vísu rétt, að samkv. gögnum hagstofunnar hefir dýrtíðin lítið aukizt. En ég vil undirstrika það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði fyrst og fremst verið að þakka þeim birgðum, sem fyrir voru í landinu, og í öðru lagi því, að skömmu eftir gengislækkunina vildi svo vel til, að allar helztu nauðsynjavörurnar stórlækkuðu í verði. Ég geri einnig ráð fyrir, að starfsemi verðlagsnefndar hafi átt nokkurn þátt á að halda niðri dýrtíðinni, en hún myndi hafa gert sitt gagn hvort sem var. Ég vildi svo ekki að öðru leyti fara fleiri orðum um þetta mál. Ég skal geta þess, að í l. eins og þau nú eru er svo ákveðið, að þriggja manna nefnd skuli gera yfirlit yfir framfærslukostnaðinn í Reykjavík l. hvers mánaðar, eftir grundvallarreglum, sem n. setur. að fengnum till. hagstofu Íslands. Komi í ljós, að framfærslukostnaður hafi hækkað í mánuðunum apríl til júlí 1939 um meira en 5%, þá er í l. heimild til, að kaupgjald ófaglærðs verkafólks megi hækka um sem svarar helmingi þeirrar hækkunar, sem verður á framfærslukostnaðinum. Verði hækkun framfærslukostnaðarins yfir 10%, má kaup hækka um 2/3 af þeirri hækkun.

Við þessi ákvæði er það fyrst að athuga, að útreikningur á meðalframfærslukostnaði á ekki að fara fram nema á þriggja mánaða fresti. Þegar um hækkandi verðlag er að ræða, hlýtur verðið alltaf að vera hærra á þeim tíma, sem meðalverðið er reiknað út, heldur en næstu viku á undan. Af þessari ástæðu hljóta verkamennirnir alltaf að fá minni kauphækkun en svarar til dýrtíðarinnar á hverjum tíma. Það má ef til vill segja, að þetta muni engu meðan ekki verða miklar verðsveiflur, en þegar atburðir gerast, sem hafa mikil áhrif á verðið, hlýtur þetta að muna miklu fyrir fólk. Ég vil í þessu sambandi einnig geta þess, að mér er ekki kunnugt um, að niðurstöður þessarar n., sem skipuð var samkv. l., hafi verið opinberlega birtar, né heldur sá grundvöllur, sem n. byggði sínar niðurstöður á og hún átti að ákveða. Mér er ekki heldur kunnugt um, að verkalýðsfélögunum hafi verið skýrt frá þessu, enda þótt það skipti mestu máli fyrir meðlimi þeirra. Ég tel þetta alveg ósæmandi, sérstaklega þar sem maður getur hugsað sér, að slík n. sem þessi sé ekki svo óskeikul, að ekki geti komið fram athugasemdir frá hlutaðeigandi aðilum um störf hennar. En þó að þetta hafi getað gengið hingað til þá er þetta ófært fyrirkomulag nú, eftir að stríðið er skollið á með þeim áhrifum, sem það hefir á öll viðskipti. Það er fjöldi af vörutegundum, sem hefir hækkað í okt. og það sem af er nóv. og eiga eftir að hækka enn meira. Ég hefi spurt hagstofustjórann, hverju þessi hækkun muni nema. En hann sagði, að ekki væri búið að ganga frá hagskýrslutölum fyrir október, og því síður fyrir þessa daga, sem af eru nóvember. Yfirleitt má gera ráð fyrir, að verðhækkunin hafi numið frá 30–50%. Og enn má gera ráð fyrir, að þegar þær vörur eru uppseldar, sem nú eru komar til landsins, þá verði enn hækkun á verðinu, jafnvel þó verðið hækki ekki á erlendum markaði meira en orðið er, vegna hækkaðra farmgjalda. Auðvitað gildir þetta fyrst og fremst um erlendar nauðsynjavörur, en samt sem áður hlýtur það að hafa áhrif á innlendu framleiðsluna. Þegar svo er komið, verður ekki hjá því komizt að taka tillit til þarfa almennings.

Annað meginatriði l. er það, að verkafólk má ekki semja sjálft um kaupbreytingar, og fyrirfram gerðir samningar, sem hafa ákvæði inni að halda um breytingar á kaupi, ef gengið breytist, eru numdir úr gildi. Þessi ákvæði mættu, eins og kunnugt er, mikilli mótspyrnu hér á landi, bæði hjá verkafólki og vinnuveitendum, því eftir því sem ég bezt veit, taldi vinnuveitendafélagið sig andvígt þessum ákvæðum l. Það eru orðin harla lítil réttindi og verkefni verkalýðsfélaganna, ef þau mega ekki gera samninga fyrir sína meðlimi og vernda hagsmuni þeirra. Þegar svo er komið, hefir verið gengið lengra á þeirra rétt heldur en annara félaga í þessu landi.

Það frv., sem við berum hér fram, fer fyrst og fremst fram á að fella þetta bann úr gildi. Við förum fram á fullan rétt til handa verkalýðsfélögunum til að mega semja um kaup og kjör verkamanna. Hinsvegar er lagt til í okkar frv., að ef hvorugur aðili kærir sig um að breyta til og báðir eru ánægðir með eða vilja sætta sig við útreikninga á dýrtíðinni, þá skuli gilda reglur, svipaðar og nú, að öðru leyti en því, að við viljum hafa „kauplagsnefndina“ skipaða 5 mönnum í stað 3 nú. Ástæðan til þess er sú, að í núgildandi l. er Alþýðusambandið talið sem aðili fyrir verkafólk, en eins og kunnugt er, þá er ekki nema helmingur verkafólkins í Alþýðusambandinu og komið annað samband við þess hlið. (FJ: Þetta eru bein ósannindi). Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Ísaf. að segja, að þetta séu ósannindi. Þetta er staðreynd, sem hv. þm. verður að taka á. Við viljum þess vegna hafa n. þannig skipaða, að einn sé tilnefndur af hæstarétti, og sé hann formaður, einn af Alþýðusambandi Íslands, einn af Landssambandi stéttarfélaganna og tveir af Vinnuveitendafélagi Íslands. Jafnframt þessu ætlumst við til, að meðalframfærslukostnaður sé reiknaður út mánaðarlega, í stað þess að vera nú reiknaður út á þriggja mánaða fresti. Kostnaðaraukningin við þetta ætti ekki að þurfa að vera mikil, þar sem gera má ráð fyrir, að þessi n. ætti ekki að þurfa að vera neitt verulega launuð.

Þá eru ákvæði í frv. um, að kaup fastráðinna manna, sem hafa undir 450 kr. laun á mánuði, skuli hækka eftir sömu reglum og kaupgjald verkafólks.

Loks töldum við rétt að fella burtu á. gr. l., en hún fjallar um það, að um verðlag á innlendum vörum, svo sem mjólk og kindakjöti, skuli gilda sömu ákvæði og um kaupgjald verkafólks.

Í l. um gengisskráningu o. fl. var ekkert tillit tekið til þess, að meðalmeðlög og allar alþýðutryggingarbætur lækka raunverulega stórlega með hinni ört vaxandi dýrtíð. Frv. til l. um hækkun meðalmeðgjafar og tryggingarbóta var flutt í Ed. á fyrri hluta þings í vor, en varð ekki útrætt. Ákvæði þessa frv. höfum við tekið upp í það frv., sem nú liggur hér fyrir. Enda er enginn vafi á því, að þeir, sem fara verst út úr dýrtíðinni, eru einmitt þeir, sem lifa á opinberri aðstoð. Þessu fólki hefir löggjafarvaldið alveg gleymt, og er það lítt skiljanlegt. við höfum hinsvegar álitið, að þessi ákvæði eigi hér heima.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að tala meira fyrir frv., en óska eftir, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. fjhn.