09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (3161)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Flm. (Héðinn Valdimarsson) :

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Ísaf. (FJ), sem ég vil snúa máli mínu að. Hann taldi, að verkamenn hefðu alls ekki verið sviptir rétti með l. um gengisskráningu, því að þeim hefði verið gefinn kostur á kauphækkun, ef dýrtíðin ykist meiru en að ákveðnu marki. Það er raunar rétt, að ég nefndi það í ræðu minni, en hann athugar það ekki, að í frv., sem við þm. Sósíalistafl. berum fram, er tekið fullt tillit til iðnaðarmanna og starfsflokka yfirleitt, og þar með afnumið það bann, að atvinnurekendur geti borgað þessum mönnum hærra kaup en gert er nú, en samkv. gildandi 1. er það alls ekki leyfilegt. Enda þótt iðnrekandi eða verzlun hafi sendil í sinni þjónustu og vilji hækka við hann kaup, getur samt ekki hækkun átt sér stað samkv. núgildandi l. Þetta er talað út í hött. Ég minnist sérstaklega á þetta, sem fyrrgreint frv. bætir úr.

Þá minntist hv. þm. Ísaf. á það, að ég hafi viðurkennt, að stj. vinnuveitendafélagsins hafi líka tjáð sig mótfallna því, að félögum verkamanna og atvinnurekenda yrði bannað að semja sín í milli eða gera aðrar ráðstafanir viðvíkjandi kaupgjaldi. En var það vegna þess að stj. vinnuveitendafélagsins gerði sig ánægða með kaupgjaldið? Þetta sannar ekki neitt, nema það, að þeir, sem stjórna vinnuveitendafélaginu, eru sammála þeim, sem stjórna verkalýðsfélögunum, um það, að þessi samtök eigi að vera frjáls og ríkið eigi ekki að ákveða kaupgjald með l., frjáls samtök verkalýðsfélaga og atvinnurekenda eigi að gera út um það. Það hefir líka verið stefna Alþýðusambands Íslands frá byrjun þar til fáum vikum síðar en gengisl. voru samþ., þegar það sundraðist. En ofan á allt þetta ætla nú foringjar Alþfl. að fara að gangast fyrir því, að binda múlinn á verkalýðinn.

Hitt er annað mál, að það eru aðrir menn, sem hafa hagsmuni atvinnurekenda fyrir augum, sem hafa komið málinu í gegn með sínu pólitíska liði á Alþ. Hv. þm. Ísaf. hlýtur að vera kunnugt um, að ýmsir af þeim mönnum, sem fastast fylgdu l. um gengisskráningu í vor, eru nú farnir að sjá, að það þarf ekki aðeins að gefa út tvenn bráðabirgðal. um það efni, heldur líka að snerta við meginliðum þess, og er gleðilegt fyrir hann að vita slíkt. — Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að hv. 5. þm. Reykv. svari þeim atriðum í ræðu hv. þm. Ísaf., þar sem vikið var að honum.