09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Finnur Jónsson:

Ég vil út af því, sem hv. þm. Reykv. sagði nú síðast, að ég vildi svipta hann málfrelsi, segja það, að ég hefði ekki viljað fyrir nokkurn mun, að hann og hans blað hefði verði svipt málfrelsi nú síðustu mánuðina, því að ef nokkur flokkur og blað hefir rifið sjálft sig niður, þá hefir hans flokkur og hans blað gert það síðan í septemberbyrjun nú í haust, og þess vegna vil ég alls ekki svipta hann málfrelsi. Hitt er annað mál, þegar farið er að óska eftir því. að hér á Íslandi komi erlent ríki og geri upp hlutina og útlendingar segi fyrir um, hvernig við eigum að lifa í landinu, þá segi ég. að tími sé kominn til að athuga, hvort slík landráðastarfsemi eigi að líðast.

Hv. 3. þm. Reykv. var óvenju viðtalsblíður að þessu sinni. Hann hélt áfram þeirri viðurkenningu sinni, að stjórn Vinnuveitendafélagsins hefði verið á móti gengisbreytingarlögunum eins og þau voru sett. Mér þykir vænt um að fá þessa viðurkenningu. Ég hélt, að hún hefði verið gefin í ógáti, en nú staðfestir hv. þm. þá viðurkenningu, að með gengisbreytingarlögunum hafi ekki verið gengið á hluta verkamannanna atvinnurekendunum í hag.

Ég þarf svo ekki fleiru að svara þessum hv. þm., en ég vil segja, að ég er honum algerlega sammála, að kaupgjaldssamningar eigi að vera frjálsir undir öllum venjul. kringumstæðum, og þar á ekki annað að grípa inn í en þjóðarnauðsyn, og um það er Alþfl. alveg sammála. Það eina, sem hér gæti þá greint á um, væri það, hvort þjóðarnauðsyn hefði verið að grípa inn í í þetta skipti, enda er það svo, að þessari undanþágu er ætlað að gilda í eitt ár og ekki meira.

Má benda á í því sambandi, að ef dýrtíð hefði aukizt í sumar, þá hefðu ýmis verkamannafélög alls ekki getað hækkað kaup sitt á þessu tímabili, ef það hefði ekki verið lögbundið, eins og t. d. verkamannafélagið Dagsbrún, því að þessi hv. þm. var nýbúinn að gera samning fyrir félagið, svo að það gat ekki hreyft við sínu kaupi fyrr en eftir heilt ár eftir að l. gengu í gildi. Fyrir félög, sem hafa gert svo ógætilega samninga, eru gengislögin vernd. Ég býst við, að það sé þess vegna, að vinnuveitendafélagið í Reykjavík, sem þessi hv. þm. gerði samninginn við, hafi verið á móti þessu ákvæði í gengisbreytingarlögunum, af því að það var verið að vernda verkamenn fyrir þeim samningi, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði gert um kaupgjald þeirra.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að gengisbreytingarlögin hefði gefið atvinnurekendunum tækifæri til að brjóta verkalýðssamtökin á bak aftur. Þetta er algerlega rangt. Þau hafa alstaðar haldið uppi fullu starfi, nema þar, sem þau eru í höndum kommúnista, og þau koma til með að berjast fyrir hagsmunamálum sínum hér eftir sem hingað til. Hann vildi halda fram, að enginn árangur hefði annar orðið af l. en sá, að brjóta niður verkalýðssamtökin. Ég vil benda honum á, að kaupgjald allra hlutasjómanna á síldveiðiflotanum í sumar varð 20% hærra fyrir ákvæði þessara l., og hjá öllum togarasjómönnum, sem ráðnir voru upp á premíu, hækkaði premían um miklu meira en sem nam aukningu dýrtíðarinnar.

Hv. þm. var að halda fram, að ég hefði verið að bera hag húseigenda fyrir brjósti. Ég hefi ekkert látið í ljós um það, heldur aðeins sagt, að gengið hafi verið á þeirra rétt, og það viðurkenndi hann. Ég dæmi ekki um, hvort þeir hafi verið bærir um að taka á móti þeirri ágengni, en býst þó við, að svo hafi verið. Ég sagði aðeins, að gengið hefði verið á hlut ýmissa fleiri en verkamanna, og taldi skyldu mína að benda á það, fyrst hv. þm. gekk algerlega framhjá því.

Hv. þm. var að óska þess, að ég nefndi eitthvert dæmi um baráttu konunúnista í verkalýðssamtökunum. Ég sé ekki ástæðu til að nefna sérstök dæmi. Alstaðar er sama sagan. við getum farið hringinn í kringum landið og alstaðar séð, að á hverjum stað, sem kommúnistar hafa stjórnað verkalýðssamtökunum, þá hafa þau misst allan baráttumátt á því sama ári, t. d. á Akureyri. Þar var eitthvert elzta verkalýðsfélagið, en þar eru þeir búnir að drepa félagið undan sér, og eins á Siglufirði. Alþfl. endurreisti þau, en konunúnistar drápu þau aftur. Sama er sagan með Drífanda í Vestmannaeyjum. Þar er ekki haldinn fundur svo að mánuðum skiptir, og komi fyrir, að fundur sé boðaður, þá kemur enginn. Verkamannafélaginu Dagsbrún hér í Reykjavík hefir hrakað svo, eftir að hv. 3. þm. Reykv. gekk kommúnistum á hönd, að það líkist engu. Þegar rætt er þar um kaupgjaldsmál félagsins, koma þar aðeins 80–100 menn á fund. Með þeirri þjónkun, sem þeir hafa haft undir Sjálfstfl. og Kommfl., þá eru þeir langt komnir með að drepa þetta sterkasta verkalýðsfélag landsins. Ég vil svo að endingu biðja þennan fyrrv. forseta Verklýðssambands Norðurlands að vísa mér á, hvar það samband nú er.

Þegar hv. þm. er að tala um pólitík innan verkalýðsfélaganna, má minna hann á, að hann og hans flokksmenn hafa beitt sér fyrir, að fjöldi Alþfl.manna væri rekinn úr Hlíf og Dagsbrún af þeirri ástæðu einni, að þeir voru Alþfl.menn. Hann var að tala um, að hættulegt vari að rifa grundvöllinn undan verkalýðssamtökunum. Það er einmitt það, sem ég er að vara hann við og álasa honum fyrir, sem þykist hafa verið sósíalisti alla sína æfi, að hann skuli hafa varið 9 árum af æfi sinni til að reyna að sprengja verkalýðssamtökin og rífa undan þeim grundvöllinn. Hans stærsta synd liggur í því. Hann hefir með allskonar ógætni og spillingarstarfsemi innan verkalýðssamtakanna gert meira að því að reyna að koma í veg fyrir, að verkamenn bættu kjör sín, heldur en jafnvel sjálft vinnuveitendafélag Íslands. Ég vil því skora á hv. þm. að reyna að taka sinnaskiptum, áður en hann kemst á annan áratuginn í þessari baráttu. Hann hefir hvort sem er tekið sinnaskiptum í svo mörgu öðru. Hann virðist t. d. nú líta öðrum augum á stríð og fasisma en áður og hafa aðrar skoðanir á landvinningapólitík og rétti smáþjóðanna en fyrir nokkrum vikum síðan. Af þeim ástæðum gæti hann kannske áttað sig á því, að stefna hans í verkalýðsmálum er röng og skora ég því á hann að taka nú sinnaskiptum til hins betra, eins og hann svo oft að undanförnu hefir tekið sinnaskiptum til hins verra.