09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (3166)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það var af hv. þm. Ísaf., á flótta frá því máli, sem hér er verið að ræða, sveigt að því, að af hálfu þess blaðs, sem ég stjórna, hefði verið óskað eftir því, að erlent ríki færi að segja okkur fyrir verkum. Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. skuli koma með hreinan uppspuna, þegar hann getur ekki varið mál þau, sem eru fyrir hendi. Hann er með þessu að reyna að staðhæfa, að ég og fleiri skoðanabræður mínir séum landráðamenn, og á víst að reyna að nota það sem átyllu til þess að banna Sósíalistafl. Ég vil benda á, að löngu áður en það tímabil hófst, sem hv. þm. er að tala um, þá var Alþfl. í sambandi við Hafnarfjarðardeiluna búinn að setja fram kröfu um að banna flokkinn. Þegar búið væri að framkvæma félagaskerðingu þá, sem gerð var með gengislögunum, og búið að undirbúa allt, sem gera átti í sambandi við Hafnarfjarðardeiluna af hálfu ríkisvaldsins, þá átti að heimta það, að Sósíalistaflokkurinn væri bannaður. Það er þess vegna ekki nýtt, þó að því sé haldið fram, að nauðsynlegt sé að banna flokkinn.

Þá kem ég að verklýðsfélögunum. Hann stóð ekki við það að nefna nein verklýðsfélög, sem klofin hefðu verið af kommúnistum. Hann drap á verklýðsfélögin á Akureyri og Siglufirði. Það er nú upplýst, að hæsta kaup, sem borgað er í skipavinnu á Íslandi, er borgað á Akureyri og Siglufirði. Verklýðsfélagið Þróttur á Siglufirði er t. d. eitt sterkasta verklýðsfélag á landinu. Það er því ekki til neins fyrir hv. þm. að vera að koma með uppspuna um þessi félög.

Þá minntist hann á Dagsbrún. Hann ætti nú sem minnst að tala um Dagsbrún, því Alþfl. er sá flokkur, sem hefir minnst fylgi þar.

Hann lauk máli sinu með því að segja, að ég hafi skipt um skoðun viðvíkjandi stríði og fasisma. Ég get sagt honum, að ég er á móti stríði og alveg sérstaklega á móti imperialistísku stríði. En mér er grunur á, að hann sé með því. Í öðru lagi get ég sagt honum, að ég er á móti fasisma. Ég er á móti fasisma í Þýzkalandi og líka í Frakklandi. Ég get líka sagt til viðbótar, að ég er á móti fasisma á Íslandi. Ég er á móti fasisma, en hv. þm. Ísaf. beiti sér fyrir því að koma honum á með því að vilja afnema Sósíalistafl. Það er því ekki ég, sem hefi skipt um skoðun, heldur hefir hann skipt um skoðun, og er það leiðinlegt um mann, sem einu sinni var sósíalisti. Hann virðist vera að fara sömu brautina og herra Hitler og herra Daladier.