03.04.1939
Efri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Mér þykir rétt við þessa umr. að gera grein fyrir atkv. mínu. Ég skal reyna að vera stuttorður, en það verður ekki hjá því komizt að rekja málið ofurlítið. Forsaga þess er sú, að skipuð var milliþn. til að rannsaka hag togaraútgerðarinnar og gera till. til viðreisnar henni. Hún skilaði áliti fyrir áramótin síðustu um, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til bjargar útveginum. Um sama leyti lagði fulltrúi Alþfl. í n., Haraldur Guðmundsson, fram till., sem Alþfl. fylgdi allur. Þær eru í því fólgnar að veita útflutningsverðlaun. Það var líka bent á aðrar leiðir til að ná inn tekjunum, t. d. með því að ríkið tæki verzlunina með vetnaðarvörur og með vaxtaskatti. Nú varð nokkurt hlé á störfum n., og var þó búizt við, að fram mundi koma ákveðið álit eftir áramótin. Var svo rætt um málið milli flokkanna þriggja, og árangurinn varð frv. það, sem hér liggur fyrir.

Fyrst þegar ég hafði veruleg afskipti af þessum málum, var það ljóst, að till. fulltrúa Alþfl. í n. nutu ekki fylgis. Hinsvegar hafði annar fulltrúi Sjálfstfl. komið fram með till. um gengislækkun, og fékk hún betri byr. Það er svo, að í öllum flokkum eru skiptar skoðanir um gengislækkun yfirleitt, og getur hún verið tvennt ólíkt, eftir því, hvernig á stendur. Það, sem fyrst kom fram sem till. í þessu efni, var, að gengið yrði lækkað skilyrðislaust, án þess að neinar bætur kæmu á móti til sjómanna og verkamanna. Það var vitanlega ljóst, að Alþfl. gat ekki fellt sig við þessa leið. Hæstv. fjmrh. tók það fram áðan, að ráðstafanir væru gerðar í þessu frv. til þess að bæta hinum lægst launuðu, en hv. 1. landsk. taldi það höfuðverkefni frv. að lækka laun hinna lægst launuðu.

Það fyrsta, sem mun hafa komið til mála sem samkomulag á milli flokkanna, var það, að frv yrði flutt á líkum grundvelli og þessum, en að engar bætur kæmu fyrr en 1. október. Þá var ekki heldur ákveðið, að láglaunamenn með minna en 3600 kr. laun fengju uppbót. Ekki heldur, að sjómenn, sem tækju hlut í afla, fengju raunverulegt verðmæti til uppbótar.

Ég benti strax á það, að ekki gæti komið til mála annað en að bætur fengjust, helzt sem fyrst, en ekki síðar en eftir 3 mánuði. Rökstuddi ég þetta með því, að síldar- og fiskvinna mundi vera um garð gengin eftir 6 mánuði. Þessi skoðun mín og fleiri manna á Alþingi hefir orðið þess valdandi, að meira tillit var tekið til þessara stétta um bætur vegna gengislækkunarinnar. Allir voru sammála um, að það varð að styrkja sjávarútveginn, og þá ekki sízt togaraútveginn. Það var fyrirfram vitað eftir reynsluna af síldveiðunum í fyrra og söluhorfum, að ógerningur var að gera út togara á síldveiðar með því lága bræðslusíldarverði, sem var síðastl. sumar. Við alþýðuflokksmenn teljum því, að með þessu fáist mikil atvinnuaukning sjómönnum til handa og verksmiðjufólki. Það er ekki hægt að reka verksmiðjurnar með fullum krafti, nema meginhluti togaranna sé á síld.

Ég tók það fram áðan, að í öllum flokkum mundi ágreiningur vera um gengismálin, og það hefir komið fram hjá flokki kommúnista, þar sem hagfræðingur þeirra hefir haldið því fram, að gengið bæri að lækka, en að bætur ættu að koma. Ég tel þessar bætur viðunandi, þegar tekið er tillit til þess, að gengislækkunin mun hafa það örvandi áhrif á útgerðina, að vinnuaukning geti komið á móti.

Það kom fram í 1d. brtt. frá þm. kommúnista um, að þrjár gr. frv. féllu niður, og með því er viðurkennt. að málið eigi rétt á sér, þar sem engin þessara greina fjallar um málið sjálft. Það er einkennilegt, að frá þeim flokki skuli koma till um, að 2. gr. falli burt, því að þó að 3. gr. félli burt, mundi hún samt ekki nóg til að bæta fólki það upp, sem 2. gr. gerir ráð fyrir. Meiri hl. verkalýðsfélaga í landinu hefir samninga án gengisklásúlu og fengi enga hækkun, ef 2. gr. félli burt, og eins er um nokkurn hluta láglaunamanna, sem hafa fasta samninga.

Það má alltaf deila um leiðirnar, en einhver úrræði verður að finna. Það var búið að heita því, að eitthvað skyldi verða gert.

Jafnvel þó að hér sé um neyðarráðstöfun að ræða, viljum við ekki verða þess valdandi, að þessi leið verði ekki reynd, og við viljum vona, að hún auki atvinnu í landinu og verði til blessunar.