10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (3170)

107. mál, útsvör

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Það er hv. þm. kunnugt, að undanfarið hefir verið gerð mikil leit að tekjum fyrir sveitarfélög af þeim sökum, að þau eru mjög mörg komin í vanda með að afla sér tekna á móti útgjöldunum. Þetta hefir tekizt seinlega og orðið yfir höfuð lítill árangur af þessu.

Ég geri nú ráð fyrir, að fleira en eitt þurfi til að koma til þess að sveitarfélögin yfirleitt komist á öruggan fjárhagslegan grundvöll. En þetta frv., sem ég flyt á þskj. 27á, miðar að því að auka fjárhagsgetu sveitarfélaga.

Höfuðatriði frv. þessa er það, að ríkið eftirláti sveitarfélögunum að afla tekna með álagningu á tekjur og eignir manna. En það er vitað, að útsvörin eru lögð aðallega á tekjur og eignir, og þá tekið jafnframt tillit til þess, hverjar ástæður manna eru að öðru leyti, svo sem framfærsluþunga, sjúkdóma o. fl., sem til greina kemur í því tilliti. En aðalundirstaða undir tekjuöfluninni er tekjur manna og eignir. Því að útsvörin eru, sem kunnugt er, lögð á eftir efnum og ástæðum.

Ríkið hefir nú af sinni fjáröflunarþörf farið allmikið inn á þessa tekjustofna með löggjöf um tekjuskatt og eignarskatt.

Nú er það aðalkjarni frv. þessa, að þessi gjöld til ríkisins hverfi smám saman úr sögunni og þá verði sveitarfélögin ein um þessar tekjur.

Mér þykir rétt að taka það fram í þessu sambandi, að reynsla undanfarinna ára hefir verið sú, að þeim sveitarfélögum hefir óðum fjölgað, sem hafa orðið ósjálfbjarga, þannig að þau hafa ekki getað staðið undir skuldum sínum og útgjöldum og hafa orðið að leita aðstoðar ríkisins. Meiri hluti allra sveitarfélaga á Íslandi hefir þannig komizt til einskonar hjálparmeðferðar. Og það voru til þau sveitarfélög, sem skulduðu fleiri hundruð þús. kr. og gátu ekki lagt á útsvör svipað því fyrir árlegum útgjöldum sínum. Þessi sveitarfélög þurftu að fá stór lán eða eftirgjafir af skuldum sínum.

Nú er það í sjálfu sér óheppilegt, að ríkið seilist inn á svo að segja þann eina tekjustofn. sem sveitarfélögin hafa, en verði svo að hlaupa undir bagga með þeim vegna þarfa þeirra á lánum eða eftirgjöfum á skuldum.

Af þessu fjárhagsástandi hjá sveitarfélögunum leiðir það, að þau verða annaðhvort að gefast upp undir skuldum sínum, sem sumar hafa stafað frá aðgerðum þess opinbera, eða þá að þau verða að ganga inn á tekjuöflunarleiðir, sem ríkið hefir haft fyrir sig, t. d. tollaálagningu.

En það er óeðlilegt og óheppilegt, að tveir aðilar eða fleiri hagnýti sér hina sömu tekjustofna. Við höfum dæmi um það, þar sem ríkið tekur, eins og í sumum tilfellum er, 40% af tekjum manna til sin. Svo kemur annar aðili, sem sé sveitarfélagið, og tekur 60% af tekjunum; hitt má útsvarsgreiðandi hafa fyrir því. En þá er bara búið að taka 100% af skattskyldu tekjunum. En það má búast við miklu meiri nærgætni í skattaálagningunni, ef einn aðili er um þetta.

Það verður einnig að taka það með í reikninginn, að þjóðfélagslega séð er það óheppilegt, að starfandi séu tvær nefndir, sem vinna báðar í raun og veru sama verk á sama tíma. En niðurjöfnunarnefnd og skattanefnd starfa á sama tíma og eru báðar að leggja tekju- og eignarskatt á sömu mennina og eftir sömu grundvallarreglunum. Ríkið greiðir fyrir þetta á ári yfir 100 þús. kr. Þó er með þeim tilkostnaði ekkert verk unnið annað en það, sem niðurjöfnunarnefndir gætu unnið jafnframt sínu starfi.

Nú er mér ljóst, að ríkið er illa við því búið eins og sakir standa að missa nokkuð af sínum tekjum. En mér þykir ólíklegt, að nokkurntíma verði þannig ástatt fyrir ríkissjóði, að forráðamenn hans viðurkenni, að nú megi hann missa eina eða tvær milljónir af tekjum sínum. Og ef þessi breyt. á að komast á, þá mun heppilegast, að hún komist á strax. Það er ekki hægt að segja um þá tekjurýrnun, sem ríkissjóður mundi af þessu hljóta, svo að ekki skakki nokkrum tugum eða hundruðum þús. En það er heldur ekki hægt að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaga með þessu án þess að ríkissjóður missi einhvers í við það.

Eftir þeim skýrslum, sem fyrir hendi eru, hafa útsvörin orðið 1937 7200000 kr., og hafa efalaust hækkað eitthvað síðan. Og á næsta ári munu þau líklega nema um 8 millj. kr. á öllu landinu. Það er gert ráð fyrir, að ríkið muni á næsta ári fá um 1700000 kr. í tekjur af tekju- og eignarskatti. Nú hefi ég lagt til í bráðabirgðaákvæði frv., að þessar tekjur hverfi smám saman óbeinlínis yfir til sveitarfélaganna, á þann hátt, að þegar búið er að jafna niður útsvörum samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélaganna, þá sé nú á næsta ári bætt við þá upphæð hjá hverjum gjaldanda 15% af útsvarinu og sú upphæð, sem þannig fæst í þessari viðbótarálagningu, greiðist óskert til ríkissjóðs, og að þetta hundraðshlutagjald fari síðan minnkandi, þangað til eftir 5 ár séu þessar tekjur horfnar ríkissjóði, en standi opnar sveitarfélögum. Ef þessi útreikningur minn stenzt fyrir árið 1940 og einnig áætlun um tekjur ríkissjóðs er rétt í þessu sambandi, samkvæmt því, sem gert er ráð fyrir, þá mun ríkissjóður fá um 1200000 kr. það ár í tekjur af þessari viðbótarálagningu við útsvörin.

Að sjálfsögðu verður ríkissjóður á einhvern hátt að bæta sér upp þann tekjumissi, sem af þessu stafar. Hitt er jafnvíst, að ef sveitarfélögin geta ekki framvegis staðið við sínar skuldbindingar og verða að leita til ríkissjóðs, eins og komið hefir fyrir og á sér stað á hverju ári um einhver sveitar- eða bæjarfélög, þá þarf líka að ætla tekjur fyrir því, svo að þetta virðist koma nokkurn veginn í sama stað niður.

Ég vil svo aðeins minnast á annað atriði frv., sem miðar að því að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaganna. Það er, að samvinnufélögin skuli greiða útsvör eftir sömu reglum og önnur atvinnufyrirtæki. Það er kunnugt, að samkvæmt samvinnufélagalögunum greiða samvinnufélögin útsvör og skatta eftir öðrum reglum en aðrir skattgreiðendur. Þetta hefir freistað margra, sem hafa stofnað til atvinnurekstrar, að koma honum í samvinnufélagsform. Það er orðið mjög algengt, að menn reyni að koma sér undan að greiða opinber gjöld með því að hafa atvinnurekstur sinn samvinnufélag. Það er enginn vafi á því, að þó þessi fyrirtæki nytu ekki annara hlunninda en þessara, sem þau nú gera, þá mundi mismunurinn á aðstöðu þeirra vera svo mikill, að það myndi erfitt fyrir samkeppnisfyrirtæki að standast samkeppnina. Það er líka orðið mjög áberandi, að í ýmsum sveitarfélögum hafa samvinnufélögin útrýmt þeim atvinnufyrirtækjum, sem aðallega hafa staðið þar undir útsvörunum. Afleiðing þessa hlýtur að verða sú, að hinir smærri gjaldendur verða að taka á sig útgjöldin, sem verða þeim um megn. Afleiðing þessa verður aftur sú, að sveitar- og bæjarfélögin verða ekki sjálfbjarga og verða að leita aðstoðar ríkisins. Nú kemur sú spurning, hvort samvinnufélögin muni vera fær um að greiða gjöld eftir svipuðum mælikvarða og aðrir. Ég hygg, að svo sé. Mörg þessara samvinnufélaga, einkanlega þau, sem hafa haft innflutning á síðustu árum, eru orðin mjög vel stæð fjárhagslega, miðað við fjárhag almennt í landinu. Og ég geri varla ráð fyrir, að menn telji það eðlilegt, að þau atvinnufyrirtæki, sem einmitt njóta sérstakra hlunninda af hálfu þess opinbera. skorist undan að taka á sig sömu skyldur gagnvart sveitarfélögunum eins og aðrir.

Ég vil svo óska þess, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fjhn.