10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

107. mál, útsvör

*Bergur Jónsson:

Það er ómögulegt að segja annað en að þetta frv. sé sakleysislegt. Það er um breyt. á 1. um útsvör. Maður hefði getað haldið, að hér væri um eitthvert smáatriði að ræða, t. d. um það, hvernig ætti að leggja á menn eftir heimilisfestu eða eitthvað slíkt. En þegar maður fer að lesa frv., kemst maður að raun um, að ef orðtækið að fela úlfinn undir sauðargærunni á nokkurstaðar við, þá getur það átt við um þetta frv. Undir þessari sakleysislegu fyrirsögn er aðeins farið fram á að fella úr gildi tekjuskattslögin og flytja tekju- og eignarskattinn að öllu leyti yfir á bæjar- og sveitarfélögin. Það er engin smáræðis breyting. sem hér er farið fram á að gerð verði seint á þingi undir sakleysislegri hulu. Hitt þykir mér ekkert undarlegt, þó að í frv. séu ákvæði viðvíkjandi skattgreiðslum samvinnufélaganna. Þetta er gamalt baráttumál þess flokks, sem þessi hv. þm. tilheyrir. Er þess vegna ekkert undarlegt, að hann hvenær sem er komi með till. í þá átt. Ég er ekki að segja, að það hafi verið tilgangur hv. flm. með þessari sakleysislegu fyrirsögn, að ætla að villa mönnum sýn. Auðvitað hefir hann mátt ganga út frá, að þm. athuguðu, hvaða fiskur lægi hér undir steini.

Það er alveg rétt hjá hv. flm., að mjög mörg sveitar- og bæjarfélög eru afarilla stæð. Þetta hefir og verið viðurkennt af Alþ. Það hefir verið skipuð mþn. til þess að reyna að rannsaka, hvernig bezt myndi að bjarga þeim. Þingið hefir og heimilað bæjar- og sveitarfélögunum að notfæra sér nýja tekjustofna, svo sem tasteignaskatt, sem ýmsir hafa notað sér. Yfirleitt er þetta mái enn til athugunar hjá hv. þm. og öðrum hugsandi mönnum um fjármál þjóðarinnar.

Að því er snertir efni frv. vil ég benda á í fyrsta lagi, að það er ekki nein smáræðis tekjulind, sem ríkissjóður væri sviptur, ef frv. væri samþ., að minsta kosti, þegar dálítið líður fram í tímann, því að tekju- og eignarskatturinn hefir verið t. d. 1937 kr. 1 milljón og 6 hundruð þúsund. Fyrir næsta ár er hann áætlaður kr. 1 millj. sjö hundruð og tuttugu þúsund. Hátekjuskatturinn það ár er áætlaður kr. 222 þúsund. Svo ef við miðum við áætlunina fyrir næsta ár, þá nemur þetta 2 milljónum króna. Það, sem mér þykir einkennilegast við röksemdafærslu hv. flm., er það, að hann talar um tekjur manna og eignir eins og einhvern skattstofn, sem bæjar- og sveitarfélögin eigi að hafa einkarétt á að nota. Hann talaði um, að ríkissjóður væri að seilast til skattstofna bæjar- og sveitarfélaga með því að taka tekju- og eignarskattinn. Ég veit ekki betur en að tekju- og eignarskatturinn sé í flestum löndum tekinn til ríkisins. Ég hefi heyrt þennan hv. þm. halda því fram fyrir mörgum árum, að það væri rétt að bæjar- og sveitarfélögin fengju einhvern hluta af tekju- og eignarskattinum. Það er allt annað mál, að ræða um slíkt.

Ég tel það alveg víst, að Alþ. muni ekki, sízt á slíkum tímum sem þessum, og með þeim undirbúningi, sem þetta mál hefir fengið, kasta frá sér einum megintekjustofni sínum án þess að fá eitthvað annað í staðinn. Þess vegna er ég ekkert hræddur um, að þetta frv. nái fram að ganga. Ég ætla því ekki að fara að lengja umr. um það. En ég vildi ekki láta því ómótmælt við l. umr. án þess að benda á það, að mönnum kemur það nokkuð kynlega fyrir sjónir, að það sé verið að læða inn undir sakleysislegu yfirskini mjög mikilsverðum breytingum á fjármálum ríkisins.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. muni nú láta í ljós sína skoðun á því, hvort hann álitur þetta aðgengilegt eða ekki. Málið hefði horft öðruvísi við, ef hann hefði athugað þetta fyrirfram og séð sér fært að afsala ríkissjóði þessum tekjustofni.

Um ákvörðun hundraðshlutanna, sem talað er um í bráðabirgðaákvæðinu, er það að segja, að mér er alveg óljóst, eftir hvaða reglum hv. flm. hefir þar farið. Mér þykir í þessu sambandi rétt að benda á, að ske kynni, að það yrði nokkuð erfitt að innheimta þetta fyrir ríkissjóð, að minnsta kosti hjá sumum sveitarfélögum. Mér skilst, að það hafi verið sagt þannig opinberlega frá um fjárhag t. d. Eskifjarðarhrepps, að það séu ekki líkur til, að það verði hægt að ná inn stórum upphæðum hjá þessum bæjar- og sveitarfélögum.