10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (3174)

107. mál, útsvör

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Það er í sjálfu sér óþarfi að svara þessum síðasta ræðumanni. Hann stóð auðheyrilega upp bara af þörf til þess að segja eitthvað, því að aldrei þessu vant bar hann fram í sinni ræðu svo eindæma vitleysu, að hún er varla svara verð.

Hv. þm. sagði, að frv. væri um afnám samvinnulaganna. Þetta er hin mesta fjarstæða. Það er aðeins hluti af einni gr., sem þar er afnuminn.

Í öðru lagi sagði hv. þm., að hér væri verið að afnema beinu skattana. Þetta er líka alveg skoplegur misskilningur, og einnig það, að þá lentu útgjöldin á fátækum verkamönnum. Það er mikil þörf hjá þessum mönnum fyrir svona málfærslu, sem æfinlega eru á þrotlausum atkvæðaveiðum. Það fer venjulega svo fyrir þeim hinum sömu, að þeir róa á hin hæpnustu og ólíklegustu mið. Ég vil nú benda á, að í frv. er það glöggt tekið fram, að beinu skattarnir breytast ekki að neinu leyti á einstaklingunum. Þeir flytjast bara frá ríkinu yfir til bæjar- og sveitarfélaganna. Þetta tók hv. þm. Barð. réttilega fram.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, að það er verið að taka frá ríkinu og færa það yfir á sveitarfélögin. Í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði um samvinnufélögin, vil ég benda honum á það, að þau hafa útrýmt gildustu skattgreiðendum margra sveitarfélaga, og skattaþyngslin þá lent yfir á mjóu bökin, einmitt þau bök, sem hann reynir að leggja undir sitt pólitíska ok og gera að sínum kosningaþjónum.