03.04.1939
Efri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson) :

Hv. 2. landsk. beindi til mín þremur fyrirspurnum áðan. Um fyrstu fyrirspurnina skal ég taka það fram, að við flm. höfum ekki rætt sérstaklega um þá menn, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, og vil ég vísa hv. þm. á orðalag frv., og að það er ákveðið, að með reglug. skuli sett nánari ákvæði.

Um aðra fyrirspurnina, hvort iðnaðarmenn á tímakaupi kæmu undir ákvæðið um kauphækkun, ef þeir hafa minna en 300 kr. mánaðarkaup, vil ég benda hv. fyrirspyrjanda á, að ákvæðið nær aðeins til fastráðinna fjölskyldumanna. Það væri ekki hægt að taka tímakaupsmenn þar með, svo óvitað sem er um tekjur þeirra.

Um síðustu fyrirspurn hv. þm. skal ég upplýsa, að eftir því, sem ég hefi fengið að vita, munu sjómenn víða vera ráðnir þannig að fá ákveðna upphæð miðað við aflamagn, og í þeim samningum er ákveðið, að þessi þóknun breytist, ef um gengisbreyt. er að ræða, og við teljum, að það atriði heyri ekki undir þau ákvæði, sem um þetta eru í 2. og 3. gr. frv. En að öðru leyti fari um kjör sjómanna eftir ákvæðum 4. gr., 1. og 2. mgr.