20.11.1939
Neðri deild: 63. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3181)

111. mál, vinnuskóli ríkisins

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þetta frv. um almennan vinnuskóla er flutt af menntmn. þessarar d. eftir tilmælum forsrh. N. hefir látið prenta frv. og flutt það alveg óbreytt frá því, sem það var þegar henni var sent það. Það hafa áður verið flutt frv. um sama efni, og ég má fullyrða, að jafnan hafa þessi frv. verið lítt hugsuð og borin fram meira af kappi en forsjá. Ég var þá þeirrar skoðunar, að til slíkra framkvæmda eins og skóla í verklegu námi yrði vel að vanda, og betur en fyrrnefnd frv. báru með sér. Á þessa skoðun féllst meiri hluti þessarar d. á fyrra þingi 1937, og einni það síðara sama ár. Á fyrra þinginu 1937, flutti Sigurður Einarsson frv. um ráðstafanir gegn atvinnuleysi unglinga og á síðara þinginu var flutt frv. um sumarvinnuskóla unglinga, af þeim hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf. Þrátt fyrir það, þó að þessi mál næðu ekki fram að ganga, þá er á engan hátt þar með slegið föstu, að almennir vinnuskólar með vel athuguðu fyrirkomulagi eigi ekki rétt á sér. Ég veit, að margir þeir, sem bera ábyrgð á uppeldi unglinga, hafa af því miklar áhyggjur, ekki sízt í sambandi við að fá störf fyrir börnin. Ég þekki marga foreldra hér í Reykjavík, sem óska þess, að til séu staðir fyrir drengi þeirra að sumarlagi, þar sem þeir væru látnir vinna. Hvernig formið væri, skipti minna máli, hvort það væru vinnuskólar, þar sem unnið væri við framleiðslustörf í sveitum eða við sjó, eða blátt áfram þegnskylduvinna, aðeins að drengirnir fengju að vinna í góðum vistum. Allir hugsandi menn vilja vitanlega styðja að uppeldi ungra manna, með því að glæða vinnukunnáttu þeirra og þegnlega skyldu. T. d. með því að gefa þeim kost á að vinna fyrir ríkið, án verulegs endurgjalds, einhverntíma meðan þeir eru í blóma lífsins. Á fyrra þinginu 1937 kom fram þáltill. frá mér um það, að ríkisstj. athugaði og undirbyggi þetta mál. Þessari till. var nokkuð breytt og samþ. að lokum að kjósa sérstaka n., sem athugaði möguleika um atvinnu fyrir unglinga. Nefndin mun hafa athugað þetta mál, en frá henni komu aldrei „positivar“ till. Nú liggur fyrir frv. um vinnuskóla ríkisins, og þetta frv. er þannig til orðið, að Lúðvig Guðmundsson ferðaðist um Norðurlönd, England og Þýzkaland á vegum ríkisstj. og kynnti sér vinnuskóla og vinnuskyldu unglinga í þessum löndum. Frv. þetta er svo byggt á þeirri þekkingu, sem Lúðvig Guðmundsson aflaði sér í þessum málum, en er að sjálfsögðu sniðið ettir íslenzkum staðháttum. Kostnaðurinn við framkvæmdir eins vinnuflokks, eins og gert er ráð fyrir í áætlun, sem prentuð er með frv., er mikill. En kostnaðurinn liggur í því, að sjálfsagt yrði að skaffa þessum piltum vinnuföt, verkfæri og fæði, auk nokkurra manna, sem sæju um verkið. En svo er enn óreynt, hvað fæst í aðra hönd. Í fyrsta lagi eru það verðmæti, sem slík vinna myndi skapa, í öðru lagi, hvaða uppeldisgildi svona starfsemi hefði. Sé borið saman við flokk fulltíða manna, sjáum við, að kostnaðarmunurinn er gífurlega mikill, þar sem ætlazt er til, að þessir ungu drengir fái 50 aura í dagkaup, en fulltíða menn það kaup, sem gilti á hverjum tíma. En svo er það að vísu óreynt, hvað mikil vinna fengist eftir svona drengjaflokka. Að vísu er gert ráð fyrir, að þeir, sem tækju þátt í svona skólum, væru í raun og veru fulltíða menn. Ég geri ráð fyrir, að skoðanir manna beinist að því, ef einhverju yrði hrundið í framkvæmd af þessu, þá yrði að miða við yngri pilta en 18–24 ára. Þetta mun menntmn. taka til athugunar, sem og aðrar hliðar þessa máls. Hv. þm. hafa í höndum nokkur rök að greinargerð í þessu máli, þar sem eru fyrirlestrar Lúðvígs Guðmundsonar, sem öllum þm. munu hafa verið sendir hér á síðasta þingi, ætla ég. Ennfremur fylgir frá L. G. nokkur grg. fyrir þeim áætlunum, sem prentaðar eru með frv., sem átti að útbýta meðal þingm. —, ég held að það sé ekki búið, en verður gert bráðlega. Með því að hv. þm. hafa fengið í hendur þau gögn. sem fyrir liggja í þessu máli, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið í þetta sinn.

Ég vil að lokum geta þess, að ég held, að það sé athugandi fyrir ríkisstj., hvort ekki ætti að koma á stað smávinnuflokkum sem tilraun í þessa átt, og gæti það orðið undirstaðan að því, sem gera þyrfti. T. d. hvort það væri þegnskylduvinnuform eða vinnuskólaform, sem hentaði betur, eins og gert er ráð fyrir í frv. Flestir munu sammála um það, að eiginlega sé ekki hægt fyrir þjóðfélagið að standa undir viðhaldi þjóðveganna án þess að til komi einhver þegnleg starfsemi frá einstaklingunum.

Ég ætla aðeins að lokum að minna á aðrar tvær hliðar, sem hér kæmu til greina. Í fyrsta lagi sú beina vinna, og í öðru lagi það uppeldisgildi, sem skólinn gæti haft. Við vitum það vel, að vinnukunnátta Íslendinga er af skornum skammti; það er eitt af okkar alvörumálum, og við verðum að auka hana stórkostlega.

Lúðvig Guðmundsson segir á einum stað í sínum gögnum:

„Tilgangur starfseminnar er:

a) að veita heilbrigt vinnuuppeldi, leiðbeina þeim í vinnutækni og veita þeim fræðslu um almenn lögmál vinnunnar,

b) að venja þá við hirðusemi, stundvísi og aga,

c) að efla líkamshreysti þeirra með heilnæmu viðurværi, einfaldri aðbúð og iðkunum íþrótta,

d) að glæða með þeim áhuga og skilning á félagslífi og samstarfi, og

e) að vekja með þeim starfslöngun og virðingu fyrir vinnunni.“

Ef þess væri kostur að koma á slíkum skólum, sem næðu þessu takmarki, er ég viss um, að ekki stæði á Alþingi að styðja slíka starfsemi.

Ég vil að lokum geta þess, að menntmn. mun taka þetta frv. til athugunar. Ég bið hæstv. forseta að láta vísa frv. til 2. umr.