17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

114. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Við höfum, fjórir þm. í þessari hv. d., leyft okkur að bera þetta frv. enn á ný fram um breyt. á jarðræktarl., sem aðeins felur í sér þá breyt.. sem mjög hefir verið umrædd, að 17. gr. l. falli burt. Er frv. ekki um annað, því að bráðabirgðaákvæði þau, sem lagt er til að fella niður, eru aðeins um það, hver áhrif 17. gr. skuli hafa á næsta fasteignamat.

Nú er mér kunnugt um, að menn muni vera bæði innan og utan þings, sem telja, að ekki sé enn tími til kominn að afnema þetta ákvæði. En ég hygg, að menn við nánari skoðun telji, að einmitt nú sé tími til að gera þessa breyt.

Það er kunnugt, að í 17. gr. felast þau atriði. sem mjög var um deilt og sumir menn héldu þá, að yrði til hagræðis fyrir búendur á jörðunum, bæði öldum og óbornum; aðrir hafa mótmælt með allmiklum rökum. Nú er vitað, hvernig þetta hefir farið, að menn hafa jafnvel hætt að láta mæla jarðabætur sínar. Nú hefi ég heyrt hjá nokkrum mönnum, sem þessu máli eru kunnugir, að þetta mál sé í n., sem ekki er þingn., heldur skipuð af búnaðarþingi; það getur vel verið — ég er því ekki kunnugur — en það getur á engan hátt svipt þm. rétti til til þess að koma fram með þetta frv., þegar þeir telja það heppilegt eða æskilegt. Og það er einmitt svo, að við flm. erum þeirrar skoðunar, að nú sé tími til að hreyfa þessu máli. Eins og kunnugt er, þá er nú samkomulag milli stærstu flokkanna um stj. og að vinna að framgangi mála, eftir því sem bezt má verða, og líka að reyna að leysa ýmis mál, sem eins og allir vita hafa verið deilumál. Nú skýtur skökku við, að ég hefi séð í blöðunum, að það er talin goðgá að tala um deilumál. Ég er annarar skoðunar. Ég tel, að ýmis mál, sem eru þannig varin, að þau snerta heill mikils fjölda fólks, eigi nú að koma fyrir og leysast, því að ef slík mál eiga að leysast með samkomulagi, þá er óskiljanlegt, hvenær er betra tækifæri til þess en einmitt nú, þegar höfuðflokkar þingsins hafa gengið saman til stjórnarmyndunar og stjórnarstarfa. Ég vil því ætla, að tíminn sé góður, og er frv. borið fram í þeim tilgangi og með þeirri ósk, að á því verði tekið.

Ég vænti, að málið fari til n. og geri að till. minni, að það fari til landbn., og vil ég vænta þess, að hún taki málið fyrir og starfi að því á þá lund, sem ég hefi nú bent á.

Ég hefi ekki ætlað mér á þessu stigi málsins að fara út í þau atriði frv., sem eru þaulrædd og gamalkunn. allir hv. þm. þekkja þetta mál, og sé ég því enga þörf að taka nú upp umr. um það, og mun ég því ekki tala frekar um það að sinni, nema sérstakt tilefni getist til.