17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (3193)

114. mál, jarðræktarlög

*Steingrímur Steinþórsson:

Hv. þm. V.-Sk. taldi, að ég hefði verið órólegur og talað með æsingu um þetta mál. Ég leyfi mér að kalla hv. þdm. til vitnis um þetta, hvaða æsing ég hafi f. d. haft í frammi. Nei, það var hv. þm. V.-Sk. sjálfur, sem var með æsing, hann hefir nú eytt hart nær 20 mín. af fundartímanum til þess að romsa úr sér persónulegum ónotum til mín. Ég held því, að hann ætti að athuga sitt sálatástand betur næst, þegar hann finnur hvöt hjá sér til þess að láta ljós mælsku sinnar skína hér í deildinni. Hann var eitthvað að tala um það, að ég hefði gengið í einhvern skóla til þess að læra að vera stuðningsmaður stjórnarinnar. Ég hefi bókstaflega aldrei heyrt annað eins rövl áður, nema þá að vera kynni í ræðum hjá honum áður, því að hann á öll met í því hér á Alþingi að flytja vitlausar og óskiljanlegar ræður.

Ég sagði, að mál þetta hefði fyrst komið fram í þinginu í dag, en þessu mótmælti hv. flm.; en þessi mótmæli hans eru bara einskis virði, því að dagskrárnar sýna sig. Á þeim stendur það ekki fyrr en í dag.

Þá var hv. þm. að reyna að færa rök að því. að það gegndi allt öðru máli um ákvæði þau í lögum um kvaðir vegna lána til húsabóta og um ákvæðin í jarðræktarlögunum vegna jarðræktarstyrksins. Þetta tvennt sagði hann ekki sambærilegt, því að menn væru sjálfráðir, hvort þeir tækju lán til húsabóta eða ekki. En þetta er ekki rétt. Hv. þm. heldur þessu aðeins fram af því, að hann og flokksmenn hans voru með að setja ákvæði í lögin um byggingar- og landnámssjóð, en á móti ákvæði 17. gr. jarðræktarlaganna. Í því liggur munurinn, en ekki öðru. Það er ekki hægt að segja, að það sýni alhliða umhyggju hv. flm. fyrir landbúnaðinum að vera með öðru atriðinu, en móti hinu, og það því fremur, sem um það verður ekki deilt, að ennþá brýnni er þörfin á því, að byggt sé upp í sveitum landsins heldur en ræktað, enda þótt á hvorutveggja sé mikil þörf. Allt fjas hv. þm. um óróleik minn er því út í loftið og fjarstæða ein. Ég sagðist aldrei vera á móti því, að frv. fengi að ganga til n., en ég benti á, að jarðræktarlögin í heild væru til athugunar hjá nefnd fyrir tilstilli ríkisstj.

Ég skal svo ekki atyrðast meira við þennan hv. þm. Ég hefi áður við umr. hér á Alþingi gert hann órólegan, og tel ég mér það til heiðurs. Það hefir því borið við fyrr, að hann hefir orðið órökvís, ekki síður en í síðustu ræðu sinni nú.