17.11.1939
Neðri deild: 62. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

114. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Hv. þm. V.-Sk. var að snúa máli sínu til mín, og er ég fús til að verða við tilmælum hans um að láta skoðun mína í ljós.

Það er mín skoðun á þessu máli, að það sé eðlilegt, að búnaðarþing eða sú nefnd, sem það hefir kosið til þess, komi sér niður á, hvernig þessu máli skuli komið fyrir í framtíðinni. Eins og hv. þm. man og hv. þd., þá var það svo með 1. kafla þessara sömu laga, að búnaðarþing stakk upp á breyt. á honum, sem síðar varð fullt samkomulag um. Ég álít það vel farið, að samkomulag náðist um það skipulag á búnaðarmálum, sem þar er gert ráð fyrir. Ég álít þess vegna, að það sé einnig bezt, að samkomulag náist um þetta ákvæði innan bændastéttarinnar sjálfrar, eða þeirra fulltrúa, sem hún hefir kosið til að sitja á búnaðarþingi og ráða þar málum hennar. (GSv: Bændastéttin á einnig fulltrúa hér á A1þ.). Bændastéttin á líka fulltrúa hér á Alþ., en það má búast við, að þessi ákvæði fari betur úr hendi, ef þau eru gerð með samkomulagi búnaðarþings og Alþ., sérstaklega eftir að það kosningafyrirkomulag var tekið upp, að búnaðarþing er fulltrúi meiri hluta bændastéttarinnar.

Ég tel líka talsvert vafasamt, að fullkomið afnám á þessu ákvæði sé að vilja bændastéttarinnar. Ég ætla ekki að ræða um þetta ákvæði nú. Það er búið að gera það svo oft, og við bætum okkur ekkert á því að taka upp ]rit deilu á ný, en eftir því, hvernig atkvgr. um málið féll meðal bændastéttarinnar, þá er það meir en lítið vafasamt, að vilji bændastéttarinnar sé sá, að ákvæðið sé afnumið að fullu. Það er ekki þetta ákvæði eitt, sem bændastéttin álitur þörf á, að tekið sé til athugunar. Ákvæði í 9. gr. gengur lengra en ákvæðið í 17. gr., og það er vitað, að nefnd búnaðarþingsins hefir einnig tekið það ákvæði til athugunar.

Til þess að fara ekki lengra út í að ræða þetta mál heldur en nauðsynlegt er, þá vil ég aðeins bæta því við, að þegar rætt var og deilt um þessi ákvæði, þá lýsti ég því yfir, að það kynni vel að vera, að bændastéttin sjálf vildi breyt. á þessu, og þá myndi ég beygja mig fyrir vilja hennar, ef hann kæmi fram á búnaðarþingi, sem kosið væri til að vilja bændastéttarinnar sjálfrar. Þetta var á sínum tíma tekið sem nokkurskonar yfirlýsing frá mér um, að ég væri að dofna í trú minni á ákvæðið. En ég lýsti þessu yfir, og að því hlýt ég að halla mér.

Ég álít rétt, að reynt sé að ná samkomulagi um þessi ákvæði. Ég lagði fast að búnaðarþingi að reyna að ná samkomulagi um 1. kafla, og það náðist. Nú á búnaðarþing að taka til athugunar ekki aðeins þetta ákvæði, heldur fleiri ákvæði, sem því eru skyld. Ég álit bezt, að nefnd búnaðarþingsins leggi fram sínar till. um rétta ákvæði og önnur skyld ákvæði, áður en Alþ. aðhefst nokkuð í málinu.