25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3205)

115. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Það er lögfest, að 1/3 byggingarkostnaðar barnaskóla utan kaupstaða skuli greiddur úr ríkissjóði. Einnig er það lögfest í gagnfræðaskólal., að þar sem ekki hafa verið byggð skólahús, þar sé heimilt að greiða úr ríkissjóði húsaleigu að 2/5, eða sama hlutfall og greitt er úr ríkissjóði til byggingar húsanna.

Frv. er borið fram til samræmis við þessi ákvæði og styrkveiting að því er snertir leigugreiðslu vegna leikfimikennslu því aðeins bundin við skóla utan kaupstaða. Það má auðvitað deila um, hvort rétt sé að hafa lagaákvæðið þannig,að greiða nokkurn hluta byggingarkostnaðar aðeins utan kaupstaða, en mér finnst tæplega hægt að samþ., að ríkissjóður greiði leigukostnað þar, sem ekki er gert ráð fyrir, að hann greiði byggingarkostnað.

Þetta er annað atriðið, sem veldur því, að ég er andvígur till. Hitt atriðið er það, að till. felur í sér allverulegan kostnað. Kostnaðurinn við það, að ríkissjóður greiði 1/3 af leigu fyrir húsnæði undir leikfimikennslu utan kaupstaða mun nema fáeinum hundruðum króna. En ef skylda á ríkissjóð til að greiða nokkurn hluta af leigu fyrir slíkt húsnæði í Rvík og öðrum kaupstöðum, þá nemur það fleiri þús. kr. Ég geri ráð fyrir, að eins og nú standa sakir, þá sé kostnaðurinn, sem Rvíkurbær hefir af þessu, 10–20 þús. kr. Ég veit, að greiddar eru fyrir einn skólann, Austurbæjarskólann, 13 þús. kr. Auk þess er greitt fyrir Skildinganesskólann og sennilega eitthvað fyrir Miðbæjarskólann. Í öðrum bæjum munn einnig vera dæmi þess, að ekkera leikfimihús sé til. Kostnaðurinn við þetta yrði því allverulegur.

Ég efast um, að frv. nái að ganga fram, ef þessi brtt. verður samþ. Það er ekki svo að skilja, að ég sé á móti því út af fyrir sig, að Rvíkurbær fengi meiri hlunnindi með tilliti til byggingar barnaskóla. En það er ekki lögfest ennþá, og því finnst mér, að hann eigi ekki að fá húsaleigustyrk.