22.11.1939
Neðri deild: 65. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

117. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Það þykir nú e. t. v. ofdirfska af mér að bera fram þetta frv., sem í rauninni felur í sér mikilsvarðandi breyt. á jarðræktarl., þótt að vísu sé ekki nema um heimild að ræða. Ég get fúslega játað það sjálfur, að ég hafi ekki til brunns að bera neina sérþekkingu, er réttlæti það, að ég verði flm. að slíku frv. Ég hefi ekki sent þetta frv. landbúnaðarráðun. til umsagnar, né leitað umsagnar þeirra manna, er hafa sérþekkingu á málinu, né heldur aflað mér þeirra upplýsinga, sem myndi þurfa við á mörgum sviðum, ef þessi lagasetning kæmi til framkvæmda.

En á hitt hefi ég jafnframt litið, að ég tel svo mikla og aðkallandi þörf á að hreyfa þessu máli hér á Alþ., og það án undandráttar, að ég vildi leyfa mér þá dirfsku að bera fram þetta frv., úr því að málinu var ekki hreyft annarstaðar að. Frá mínum bæjardyrum séð tel ég mig ekki þurfa frekari afsakana við.

Ég skal taka það strax fram, að ég vænti þess, að hv. Nd. vísi þessu frv. til landbn. að lokinni 1. umr., og þá vænti ég þess, að þeir menn fái það til meðferðar, sem sérstaklega er freystandi til að vita deili á hverju einu, er að þessum málum lýtur, og þeir muni leggja hið bezta til um framkvæmdir í sambandi við þetta, eftir því sem sú niðurstaða, er n. kemst að, gefur tilefni til.

Ég hreyfi þessu máli hér á hv. Alþ. vegna þess, að mín skoðun er sú, að það megi ekki biða lengur, að það verði rætt og útkljáð á einhvern veg. Ég er sannfærður um, enda er það umsögn margra manna, sem óefað hafa nokkra þekkingu á því, hvernig jarðræktarl. eru framkvæmd, að landbúnaður hér á landi er að ýmsu leyti kominn á það stig, að nauðsyn ber til að endurskapa þessi l. eða gera breyt. á þeim, er grípa megi til undir vissum kringumstæðum. Þar með er ég kominn að því atriði málsins, sem mér finnst mestu skipta, og á ég þar sérstaklega við, að styrkur sá eða hin opinbera hjálp, sem samkv. jarðræktarl. hefir hin síðari ár verið veitt til túnastækkunar, túnasléttunar og garðræktar, hefir komið svo mikilli þenslu í þær framkvæmdir víðsvegar um landið, að óhjákvæmilegt er að gera sér grein fyrir, hvernig þessari auknu ræktun verði hagað svo, að fjárstyrkurinn komi að tilætluðum notum. við Íslendingar stöndum þar á tímamótum. Ekki verður lengur komizt hjá að gera sér grein fyrir, hvernig þessum málum verði hagað, svo að allt það land, sem búið er að rækta, geti komið landsmönnum að tilætluðum notum. Það þarf raunar ekki að taka það fram, því að það er öllum kunnugt, að þótt búpeningi landsmanna hafi fjölgað, hefir áburðarmagnið af húsdýraáburði ekki aukizt svo mikið, að það samsvari hinni auknu ræktun. Þess vegna hafa margir landsmenn verið neyddir til að kaupa geysimikið af erlendum áburði við því verði, sem hann hefir verið fáanlegur. Margir hafa gert það umfram getu, en þeir sáu sig knúða til þess. ef hið ræktaða land ætti ekki að fara í órækt aftur. Til þess að gera sér grein fyrir, hve víðtækt þetta er, þarf rannsókn, og er rétt að geta þess, að landbn. hefir langtum betri aðstöðu en aðrir til að gera sér ýtarlega grein fyrir, hversu ríkar þær ástæður eru, og vona ég, að hv. nefnd finni heppilega lausn á málinu.

Félög bænda víðsvegar um landið hafa áhyggjur út af því og telja horfa til vandræða, sérstaklega vegna núverandi ástands, að mikil hætta er á, að hinn útlendi áburður, í samræmi við gang stríðsmálanna, hækki gífurlega í verði. Þetta eru nú ágizkanir að sumu leyti. Ég veit ekki, hvort enn hefir fengizt staðfesting á, að erlendur áburður hafi hækkað í verði, né hve miklu sú verðhækkun muni nema. En hitt þykist ég mega fullyrða, að sú verðhækkun hljóti að koma.

Það, sem ég legg til málanna, er því í höfuðatriðum á þá leið, að verði meiri verðhækkun á erlendum áburði en 15% frá meðalverði því, er var á honum á árunum 1937–1939, sé landbúnaðarráðh., að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands, heimilt að lækka jarðræktarstyrkinn um ákveðinn hundraðshluta, og sú fjárhæð, er lækkuninni nemur, skuli notuð til að styrkja bændur, er hafa túnrækt og garðrækt, til kaupa á erlendum áburði. Margir þeirra myndu eigi hafa bolmagn til að greiða meira fé fyrir erlendan áburð en þeir hafa áður gert. Þetta frv. er borið fram til þess að málið lendi ekki í fullkomnu öngþveiti.

Ég tek það fram í grg., sem fylgir frv., að það verði að teljast réttmætt að láta heimildina ekki gilda, nema hækkun á áburðarverði reynist veruleg íþynging, og þótt þessi heimild verði notuð, nái styrkurinn einungis til hækkunar verðs, til þess að koma í veg fyrir, að menn kaupi áburð umfram það, sem þörf krefur.

Ég geng þess ekki dulinn, að það orki tvímælis, hvort rétt sé að ganga inn á þá braut, að skerða styrkinn til ýmsra mikilsverðra búnaðarframkvæmda. Ég segi ekkert um það annað en ef landbn. hv. Nd., eða landbn. Nd. og Ed. finna annað ráð vænna til þess að hlaupa þarna undir bagga, þá væri það engum kærara en mér. En ég stakk upp á þessari aðferð vegna þess. að ég er vantrúaður á, að slíkar leiðir séu finnanlegar. Ég býst ekki við, að Alþ. sjái leið til að inna af hendi mikil framlög til styrktar landbúnaði nema minnka styrk til annars í samræmi við það. Það skiptir mjög litlu máli, hvort jarðræktarstyrkur er greiddur til að ráða fram úr vandræðum manna vegna áburðarkaupa eða til aukinnar jarðræktar, því að þar er um sama markmið að ræða. En hvort gera skal, fer eftir því, hvort er meira aðkallandi til lausnar á ræktunarmálunum. Fyrir mitt leyti trúi ég engum betur til að finna réttustu leiðina en landbn., sem ég vænti, að taki þetta til athugunar.

Ég er þeirrar skoðunar, að sú stefna, að halda við og auka ræktun þess lands, sem sléttað hefir verið, eigi fullan rétt á sér, og styrkur til áburðarkaupa eigi að ganga fyrir styrk til jarðabóta. Miðað við þetta tel ég rétt að láta styrkskerðinguna ekki ná til þess jarðræktarstyrks, sem veittur er til umbóta á áburðarhirðingu, því að allt, sem þar má að gagni verða, stefnir að sama markmiði sem frv. þetta, og hygg ég, að það atriði þurfi ekki sérstakrar skýringar við.

Ég geri ráð fyrir, að eitt af því, sem þyki vandasamt við úrlausn þessa máls, sé það, hvort unnt verði að úthluta þessháttar styrk til áburðarkaupenda í eðlilegum og sanngjörnum hlutföllum meðal þeirra, er óska eftir slíkum styrk. Það er náttúrlega með þessu frv. varpað miklum vanda á herðar þeim, sem þessum málum eiga að stjórna, hvernig úr þeim eigi að greiða. En ég skal taka það hér fram nánar en gert er í frv., að ég álít, að landbúnaðarráðh. yrði að styðjast við tillögur yfirstjórnar jarðræktarl., Búnaðarfélags Íslands. Hnitmiðun á þessu yrði nokkuð vandasöm, en samt tel ég bót að þessu frv. í meginatriðum. Fyrst og fremst myndu þeir, er fengju styrk til áburðarkaupa, ef heimildin yrði notuð, verða yfirleitt sömu mennirnir, sem nú njóta styrks samkv. jarðræktarl. Sá nýræktarstyrkur, sem af þeim væri tekinn, kæmi aftur til þeirra sem áburðarstyrkur. Þeir fá uppbótina, sem kunna að bera þarna skarðan hlut frá borði, en víðast mun því svo háttað, að þeir, sem hafa mest af nýræktuðu landi, hafa einnig mesta þörf fyrir áburðarkaup, og þótt þá væri ekki rétt, að þeir misstu þann hluta af jarðraktarstyrknum, án uppbótar, tel ég, að með þessu frv. sé samt sem áður fullnægt réttlætinu í flestum tilfellum.

Um garðræktarmenn er það að segja, að þeir eiga yfirleitt að fá sama rétt um styrkveitingar til áburðarkaupa sem þeir, er rækta tún. Þessi styrkveiting kemur ekki til greina, nema verð á tilbúnum áburði hækki a. m. k. um 15% frá meðalverði síðustu ára, og styrkurinn má aldrei nema hærri fjárhæð en verðhækkun áburðarins nemur, og þessi ákvæði eru nokkur hemill á, að gengið verði of langt og enginn leggi í gífurleg kaup á útlendum áburði vegna ímyndaðra þarfa. Einnig er í frv. ákvæði um. að ársstyrkur til eins býlis megi ekki vera hærri en 380 kr., og er það vísast sett nokkuð af handahófi. Það verður vitanlega alltaf álitamál, hvaða hámarksupphæð skyldi ákveða.

Að öðru leyti er svo fyrir mælt í frv., að styrkur til áburðarkaupa verði nánar ákveðinn í reglugerð, er Búnaðarfélag Íslands setur, en landbrh. staðfestir. Búnaðarfélagi Íslands er bezt treystandi til að veita réttar upplýsingar og hafa gát á, að öllum mönnum verði veittur sá styrkur, sem við á.

En að síðustu vil ég segja þetta, að ég tel ótvíræða þörf á því, að Alþ. láti þetta, mál til sín taka. Vegna aukinnar jarðræktar hafa tún- og garðræktarmenn verið í vandræðum með að afla sér áburðar, og er þar um atriði að ræða. sem gerir það að verkum, að það er alveg knýjandi nauðsyn fyrir Alþ. að taka málið til meðferðar, sérstaklega eins og nú standa sakir. Fyrst er á það að líta, að dýrtíðin fer óðfluga vaxandi í landinu. allar aðkeyptar vörur hafa hækkað hröðum skrefum, án þess að afurðir bænda hafi hækkað neitt að sama skapi enn sem komið er. Það liggur því í hlutarins eðli, að þegar svo er ástatt, að verðlag á aðalframleiðsluvörum bændanna helzt óbreytt, en erlend vara hækkar, er nauðsynlegt að finna einhverja leið til þess að þeirri stétt verði hjálpað til að lifa á þann hátt, sem þetta frv. fer fram á. Verði það ekki gert, mun fara enn verr en orðið er. Það er líka tímabær hreyfing, sem hefir komið fram bæði hér á Alþ. og annarstaðar, að allt sé gert, sem auðið er, til að auka innlenda framleiðslu og spara kaup á erlendum vörum. En til þess að það geti orðið þarf vitanlega að tryggja það, að garðræktin geti notið sín, en minnki ekki vegna áburðarskorts, túnaukinn fái notið sín og sprettan verði eðlileg árlega, en nýræktin gangi ekki úr sér. Þetta skýrir sig sjálft, og auðskilið, að það hefir stóra „praktiska“ þýðingu.

Fjárpest sú, sem nefnd er mæðiveiki, hefir eytt sauðfjárstofni bænda á stórum svæðum, og þess vegna er nú að koma fram viðleitni til fjölbreyttari framleiðslu en hingað til, svo sem kúabú og garðrækt, og þá verður að hjálpa til þess og gæta þess, að slíkt fái notið sín svo sem frekast er hægt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta, en vil þó að síðustu taka fram, að þetta frv. um viðauka við jarðræktarl. er aðeins um heimild, sem hægt á að vera að gripa til, ef nauðsyn krefur, en þó ekki nema eitt ár í senn. Þarna er því ekki verið að binda neitt. sem gildir frá ári til árs, og þess þarf einmitt með á þessum viðsjárverðu verðbreytingatímum. Þótt svo sé tekið til orða í frv., að aldrei skuli taka yfir 50% af styrk hvers árs á nefndum liðum jarðræktarlaganna, þá fer það alveg eftir verðlagi, hvort sú upphæð verður ekki talsvert minni en 50%, því styrkveiting þessi er bundin við, að verð á áburði hækki meira en 15%, miðað við meðalverð síðustu 3 ára.

Það markmið, sem þetta frv. hefir og gefur mér myndugleik til þess að bera það fram, er, að ég tel, að ekki verði hjá því komizt, að Alþingi láti þessi mál til sín taka. Hvort frv. nær tilgangi sínum eins og það er, er ég ekki fær um að dæma, en engum er það kærara en mér, að breytingar verði á því gerðar, ef þær eru svo úr garði gerðar, að þær verði til bóta frá þeirri uppástungu sem hér er gerð.

Svo vil ég leyfa mér að óska, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.