24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

125. mál, rafveitulánasjóður

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að stofnaður verði sjóður, er hafi að markmiði að veita lán til þess að koma upp rafstöðvum eða veita raforku frá rafstöðvum, sem fyrir kunna að vera í landinu. Lán þessi má veita bæði einstaklingum, þar sem svo hagar til, að skilyrði eru fyrir rafstöðvarbyggingu fyrir einstök heimili, sömuleiðis bæjar- eða sveitarfélögum og sérstökum félögum, sem stofnuð kynnu að verða í því skyni að byggja rafveitur. Ennfremur ríkinu eða ríkisfyrirtækjum, ef ríkið kynni að taka að sér slíkar framkvæmdir.

Svo sem kunnugt er, hafa verið miklar framkvæmdir í raforkumálum hér á landi nú síðustu árin. Það hafa verið reist stór orkuver að undanförnu, þar af er Sogsvirkjunin stærst, en ýmsar fleiri stórar stöðvar hafa og verið reistar. Fyrir þessu þingi liggja till. um aðstoð ríkisins til þess að leiða raforku frá Soginu og öðrum rafstöðvum, sem reistar hafa verið, til nærliggjandi sveita og kauptúna. Er ekki undarlegt, þó slíkar óskir um aðstoð fjárveitingavaldsins komi fram frá fólki því, sem býr á þeim stöðum, þar sem enn eru ekki komnar upp rafstöðvar, en skilyrði eru til þess að reisa slík mannvirki. Hefir það jafnmikinn rétt til aðstoðar ríkisins og sá mikli mannfjöldi, sem fengið hefir þá aðstoð að undanförnu, með ríkisábyrgðum þeim, sem veittar hafa verið til þessara framkvæmda.

Rafstöðvarnar, sem reistar hafa verið undanfarið, hafa mestmegnis verið reistar fyrir erlent lánsfé, sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir. En með tilliti til þess, að varhugavert verður að teljast að halda áfram á þeirri braut, að taka lán erlendis, þótt til nauðsynlegra framkvæmda sé, tel ég, að athuga verði möguleikana til að afla innlends fjármagns, sem megi nota í þessu skyni, þó gera megi ráð fyrir, að það verði af skornum skammti næstu árin, svo framkvæmdunum geti ekki miðað ört áfram. Einmitt vegna þess, að það tekur langan tíma að nota alla möguleika til rafvirkjunar, sem til eru hér á landi, er mikið í varið, að sem fyrst verði hafizt handa um byrjunarframkvæmdirnar. Því hefi ég lagt það til með flutningi þessa frv., að farið sé sem fyrst af stað.

Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi rafveitulánasjóður fái tekjur á þann hátt, að ríkissjóður leggi honum til fé. Ég hefi ekki talið fært, eins og á stendur, að ákveða upphæðina, en frv. gerir ráð fyrir, að hún verði ákveðin í fjárlögum, hvort sem hæstv. Alþingi sér sér fært að setja einhverja upphæð til þessa í þau fjárl., sem samþ. verða áður en þessu þingi verður slitið. En ég vildi óska, að sem fyrst væri hægt að leggja fram einhverja upphæð af hálfu ríkisvaldsins til þessa sjóðs. Að öðru leyti er gert ráð fyrir, að sjóðurinn fái tekjur með því, að lagt verði lítilfjörlegt gjald á rafveitur þær, sem nú eru til og njóta ríkislána eða ábyrgðar ríkisins fyrir lánum, og sé gjaldið miðað við þær upphæðir, sem ríkið hefir lánað eða stendur í ábyrgð fyrir. Gjaldið sé 1/2% fyrstu 5 árin og hækki um 1/2% á 5 ára fresti, svo það verður lítil byrði fyrstu árin fyrir rafveiturnar, en fer hækkandi lítilsháttar eftir því, sem skuldir þeirra lækka. Sömuleiðis er gert ráð fyrir, að þeir, sem fá lán úr sjóðnum, verði að greiða til hans sama hundraðshluta af lánunum og vextir af sjóðnum leggist við höfuðstól. Lán úr sjóðnum má nema allt að 1/5 hlutum stofnkostnaðar þess orkuvers eða orkuveitu, sem það er veitt til. Þá er gert ráð fyrir, að Búnaðarbanki Íslands hafi með höndum stjórn og rekstur sjóðsins, og setur ráðh. nánari ákvæði um rekstur hans með reglugerð.

Ég vil fastlega vænta þess, að hæstv. Alþingi geti fallizt á að gera frv. þetta að l., og ég tel víst, að þeir, sem hafa fengið aðstoð ríkisins að undanförnu til þess að notfæra sér raforkuna, vilji fúsir taka á sig smávægileg útgjöld til að greiða fyrir því, að þeir mörgu landsmenn, sem enn hafa ekki getað notið þessara miklu gæða, geti fengið þau smám saman.

Ég vil benda á, að vegna styrjaldarinnar hefir orðið og verður stórkostleg verðhækkun á erlendu eldsneyti og ljósmeti, og því hefir gildi raforkunnar aukizt margfaldlega fyrir þá, sem fengið hafa aðstoð ríkisins til að koma upp rafstöðvum, en um leið verður það tilfinnanlegra fyrir þá, sem ekki hafa getað komið upp rafstöðvum, þótt skilyrði væru fyrir hendi. Því er ekki nema sjálfsagt að stíga nú þegar eitthvert spor í þá átt, að fleiri geti orðið rafmagnsins aðnjótandi.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa orð mín fleiri á þessu stigi málsins, en leyfi mér að gera þá till., að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.