09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3239)

125. mál, rafveitulánasjóður

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég tel rétt að segja fá orð út af ræðum þeirra hv. þm. Ak. og hv. 6. þm. Reykv. Það er náttúrlega ekki nema eðlilegt, að fulltrúar fyrir kjördæmi, sem þegar hafa fengið hjálp ríkisins til að koma upp hjá sér voldugum rafstöðvum, séu ekki ginnkeyptir fyrir því, að lagðir séu á þau skattar fyrir þau fríðindi, er þau hafa notið með hjálp ríkisins. Ég skil þá afstöðu þeirra. En málið horfir þó öðruvísi við í raun og veru. Í ræðum beggja hv. þm. kom fram viðurkenning á nauðsyn þess að finna ráð til þess, að hægt verði sem fyrst að veita rafmagninu um landið. Þess verður áreiðanlega ekki langt að bíða, að sá staður verði ekki talinn byggilegur hér á landi, þar sem ekki er rafmagn. Svo mjög grípur það inn í allt athafnalíf manna, þar sem það er notað. Ég vil spyrja, hvort mönnum þyki ekki nóg vera komið af fólkinu til þessara staða, þar sem rafmagnsstöðvum hefir verið komið upp, til þess að ástæða væri til að leita úrræða um það að halda fólkinu á hinum stöðunum. En hlutir eins og rafmagnið eiga sinn mikla þátt í því, að fólkið streymir til kaupstaðanna. Það stingur mjög í stúf, er menn koma úr myrkrinu í sveitunum og sjá ljósadýrðina t. d. hér í Reykjavík. Þessi glans yfir borgarlífinu tælir margan, sem ekki kafar dýpra og kemur ekki auga á örðugleikana, sem því eru samfara. Hinsvegar veit ég, að enginn getur neitað því, að þegar ríkið tekur á sig svo miklar ábyrgðir til þess að koma upp rafveitum víða í kaupstöðum, þá sé líka sanngjarnt, að þeir, sem þessa hafa notið, leggi einnig nokkuð af mörkum til þess, að hægt sé að koma rafmagninu sem víðast út um landið.

Hv. þm. Ak. talaði um það, hve ranglátt væri að skattleggja skuldirnar, eins og hann og hv. 6. þm. Reykv. komust að orði. En það er ekkert eins dæmi, að skuldir séu skattlagðar. Og þetta er svipuð leið og farin hefir verið í öðrum löndum, þar sem líkt stendur á, t. d. í Noregi. Víða þar í strjálbýlinu, þar sem reistar hafa verið rafmagnsstöðvar, hafa verið lögð gjöld á þær og stofnaðir sjóðir, til þess að hægt væri að koma rafmagninu til sem flestra. Ég tel það okkur til ámælis, að við skulum ekki hafa tekið upp þetta skipulag, áður en ríkisábyrgð var veitt stærstu rafveitunum. Því lít ég á 2. tölul. 2. gr. sem mjög sanngjarnan, þar sem gert er ráð fyrir, að lögð séu gjöld á þá, sem fengið hafa rafveitur, til þess að hægt sé að koma því til fleiri manna. Síðan á að leggja gjöld á þá, sem rafmagnið fá á þennan hátt, þannig að hægt sé með tíð og tíma að byggja upp fullnægjandi rafveitukerfi fyrir landið.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir í fjhn. komið með þá till., að málið verði sent til umsagnar þeim bæjarstj., sem þegar hafa fengið rafveitur, en þetta var fellt. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel litla ástæðu til að senda þeim málið til umsagnar, því að fyrirfram er vitað, hver svör þeirra muni verða. Þegar leggja á gjöld á menn, eru það alltaf gjaldendurnir, sem mótmæla. Þetta var því aðeins til þess að eyða málinu. Ef átt hefði að fara þessa leið, hefði eins mátt senda málið öllum bæjar- og sveitarstj. í landinu, og hefðu þá eflaust komið meðmæli frá öllum þeim, sem vantar rafmagnið. Verð ég því að telja, að í till. hv. þm. hafi verið nokkur hlutdrægni.

Ég hefi ekki talað við hv. meðnm. mína um hina rökst. dagskrá frá hv. 6. þm. Reykv., svo að ég get ekki talað fyrir þeirra hönd, en ég lít svo á, að ekki hafi komið fram þær mótbárur gegn frv., að ástæða sé til að vísa því frá. Mun ég því greiða atkv. á móti þessari rökst. dagskrá.