14.12.1939
Neðri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (3245)

125. mál, rafveitulánasjóður

Finnur Jónsson:

Ég viðurkenni, að það sé æskilegt, ef unnt væri að fá fé innanlands til sem flestra framkvæmda og komast þannig hjá erlendum lántökum. Þetta mun einnig liggja á bak við frv. það, sem hér er til umr., en ég get þó eigi fallizt á það, að frv. í þessu formi eigi nokkurn rétt á sér. — Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki eftir á gjald af ríkisábyrgð á skuldum. Fyrir flm. frv. vakir víst, að þegar bankarnir ganga í ábyrgð fyrir láni, taka þeir gjald fyrir ábyrgðina, en það er ætíð gert fyrirfram, þannig að lántakendur vita, að hverju þeir ganga. Hér er öðru máli að gegna. Hér er ætlazt til þess, að ríkissjóður komi eftir að hann hefir lofað ábyrgðinni, og eftir að búið er að uppfylla þau skilyrði, sem ríkissjóður hefir sett fyrir henni, og taki gjald af ábyrgðinni. Þetta er alveg einsdæmi, því að í hvert skipti, sem ríkissjóður hefir gengið í ábyrgð fyrir láni til fyrirtækis, hefir stjórnin sett viss skilyrði fyrir ábyrgðinni, og það hefir alls ekki legið fyrir, að ríkissjóður ætlaði sér að taka sérstakt gjald af ábyrgðinni. Af þessum ástæðum tel ég, að frv. sé tæplega frambærilegt á þingi. — Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að ábyrgðarþóknunin — en svo mætti vel kalla þennan skatt — sé tekin af öllum lánum, hve óhagstæð sem þau kunna að vera. Nú er nokkuð af þeim lánum, sem ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir vegna rafveitnanna, með allt að 7% vöxtum, og ef þar við bætist eftir því sem lengra líður allt að 21/2%, eins og frv. gerir ráð fyrir, fara lánin að verða nokkuð dýr. Í frv. er sem sé gert ráð fyrir 0,5% gjaldi, sem hækki á 5 ára fresti um 0,5%, þannig að að 25 árum liðnum yrði ábyrgðarþóknun ríkissjóðs 21/2% á ári, eða miklu hærri en nokkrum banka dettur í hug að taka í ábyrgðarþóknun. Þegar svo hér við bætast vextir, mætti kalla þetta okur. Það mætti segja, ef gengið hefði verið út frá því í fyrstu, að ríkissjóður gæti tekið slíkt ábyrgðargjald, en hvers vegna er það þá ekki tekið af öllum lánum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, t. d. af lánum til hafnarmannvirkja eða t. d. skóla? Mætti þá leggja það fé í sérstaka sjóði, til bygginga nýrra hafnarmannvirkja, nýrra skóla o. s. frv.

Rafveiturnar hér á landi hafa ekki orðið þau gróðafyrirtæki, að rétt sé að skattleggja þær sérstaklega. Þær eru miklu fremur menningarfyrirtæki, eins og t. d. skólar. Þær eru stofnanir, sem auka á þægindi og efla heilbrigði manna í landinu.

Ég viðurkenni fyllilega þau rök hv. flm. fyrir frv., að nauðsynlegt væri að byggja upp slíka sjóði innanlands til þess að komast hjá erlendum lántökum, en ég tel þetta ekki rétta leið til þess að ná því takmarki. Mér virðist frv. lítt hugsað, þar sem gert er ráð fyrir, að ábyrgðarþóknunin sé lögð á fyrirtækin, hvort sem þau standa sig vel eða illa. Ennfremur er þessi skattur lagður á án tillits til þess, hvernig lánskjörin eru, og loks er gert ráð fyrir, að skatturinn sé sá sami, hvort sem veitt hefir verið 100% ábyrgð eða 80–85% ábyrgð, eins og veitt hefir verið ýmsum rafveitum hér á landi. Þá er þetta allmikill skattur á neyzlu þeirra, sem hafa rafmagn, og ég sé ekki, að það sé réttlátara að skattleggja notkun rafmagns en t. d. síma. (SvbH: Hvernig er með símagjöldin?). Ég veit ekki til þess, að lagður sé sérstakur skattur á þá, sem hafa síma, heldur tekur síminn sín afnotagjöld. — Annars hefir mér oft þótt vænt um mælsku hv. 1. þm. Rang., en ekki þegar hún gengur út á það, að gjamma fram í hér í deildinni. (SvbH: Það er verst, ef hv. þm. gerir það aldrei sjálfur). Ef tekin yrði sú stefna, að ríkið tæki slíka ábyrgðarþóknun, ætti hún að vera eitt af skilyrðum ríkissjóðs fyrir lánsábyrgðinni, en það nær engri átt að koma þannig aftan að þeim fyrirtækjum, sem þegar hafa fengið ríkisábyrgð á lánum sinum og uppfyllt sett skilyrði fyrir henni. — Og vilji löggjafinn taka þetta upp, ætti vitanlega að gilda sama regla um öll lán, sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir; en að taka rafveiturnar einar út úr og leggja á þær slíka skatta, eftir að þær hafa fullnægt settum skilyrðum fyrir ábyrgðinni, er bæði ranglátt og skaðlegt.