29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3264)

137. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Helgi Jónasson):

Fyrir yfirstandandi Alþingi liggur frv. til l. um breyt. á l. um alþýðutryggingar, og eru flm. þess hv. þm. Seyðf., hv. 2. þm. Reykv. og ég. Frv. þetta er að mestu tekið óbreytt upp í frv. það, sem nú er lagt fyrir Alþingi. Fjallar það aðallega um stofnun sjúkrasamlaga í skólum landsins, en auk þess eru gerðar nokkrar smávægilegar breyt. á l., sem aðallega snerta framkvæmd þeirra. — Þetta frv. er að miklu leyti sniðið eftir fyrra frv., en auk þess er í þessu frv. gerð nokkur viðbót, sem er shlj. till., sem samþ. voru á fulltrúafundi sjúkrasamlaganna, sem haldinn var í Reykjavík síðastl. sumar.

Ég vil fara nokkrum orðum um einstakar gr. frv. 4.–5. gr. fjalla um það, að nemendur skóla, sem búsettir eru utan samlagssvæðis, geti öðlazt réttindi án biðtíma, þar sem fyrir eru lögboðin sjúkrasamlög.

Samkv. fyrri tryggingarl. er slíkt ekki kleift. Það er því nauðsynlegt að gera þær breyt., sem farið er fram á í 4.–5. gr. þessa frv. Það má búast við því, að bið verði á stofnun sjúkrasamlaga í sveitum landsins; þess vegna er lagt til í þessu frv., að alþýðuskólar, sem hafa 40 nemendur eða fleiri, geti stofnað sérstakt samlag innan skólans eftir öðrum reglum en nú eru í l. Þessi tala, 40, getur líka vel borið sig, því ef athugað er fylgiskjal um yfirlit nemendafjölda, þá kemur í ljós, að flestir skólarnir hafa yfir 40 nemendur. Þá er og gert ráð fyrir, að starfsfólk skólanna geti einnig verið með, og yrði það þá til að fylla töluna, ef nemendur væru ekki nógu margir.

6. gr. ræðir um gagnkvæma samninga milli samlaga um meðlimsréttindi samlagsmanna. Talsverðir erfiðleikar geta verið á því, að slíkir samningar komist á, sérstaklega eftir því, sem samlögunum fjölgar. Virðist því ekki óeðlilegt að gefa tryggingarstofnuninni heimild til, með samþykki ráðh., að setja reglur, er komi í stað slíks samnings, enda sé því samlagi, sem tekur á móti meðlimum annars samlags til bráðabirgða, tryggð endurgreiðsla á þeim kostnaði, sem það kann að hafa þeirra vegna. Ég held, að þessi gr. sé fyllilega réttlát.

7. gr. ræðir um það, hvort sjúkrasamlögum beri skylda til að greiða kostnað vegna kynsjúkdóma og smitandi berklaveiki. En hér eru tekin af öll tvímæli um það og lagt til, að þau greiði ekki sjúkrahús- eða hælisvist berklasjúklinga, sem smitunarhætta stafar af. Lækningar kynsjúkdóma og hælisvist smitandi berklasjúklinga eru heilbrigðisráðstafanir, sem álitnar eru fyrst og fremst nauðsynlegar vegna almenns öryggis, og því eðlilegt, að hið opinbera greiði fyrir þær, að svo miklu leyti, sem efnahagur sjúklinga leyfir það ekki, að þeir geri það sjálfir.

11. gr. fjallar um það, að útgerðarmönnum skuli skylt að greiða tryggingargjald fyrir sjómenn (lögskráða). Samkv. eldri ákvæðum er gert ráð fyrir, að útgerðarmenn semji við samlögin um, að þau taki að sér áhættu þá, sem þeir bera samkv. 27.–28. gr. sjómannal. Samlögin greiða víða fastagjald til lækna fyrir hvern samlagsmann, en eiga aðeins endurkröfurétt á útgerðarmenn á þeim kostnaði, sem þau kunna að hafa greitt vegna veikinda skipverja, en fastagjaldið er greitt einnig fyrir þá, sem ekki veikjast. Afleiðingin hefir orðið sú, að sjómenn hafa yfirleitt verið látnir greiða fullt iðgjald, enda þótt það sé ekki tilgangur l. Einnig mun hitt alltítt, að sjómenn hafi ekki haldið við tryggingunni, vegna þess að þeir telji sig tryggða hjá útgerðinni. Þessa gr. álít ég því horfa til bóta, ef hægt væri að koma á samningum milli einstakra útgerðarmanna og sjúkrasamlaganna.

Þá er 16. gr. Fyrri breyt. hennar er aðeins orðalagsbreyt., þar sem núv. orðalag gæti valdið misskilningi. Um síðari breyt. er það að segja, að óttast má, að eftirlaunasjóður annara stofnana komi fljótlega með kröfur um samskonar undanþágu og eftirlaunasjóðum bankanna er veitt, en þeim virðist hinsvegar full sanngirni sýnd, þótt þeir komi undir hið almenna ákvæði 49. gr. laganna. Eins og kunnugt er, er það skylda samkv. l. að greiða í lífeyrissjóð Íslands persónugjald, sem nemur 7 kr. í kaupstað, en 5 kr. í sveit, og auk þess 1% af skattskyldum tekjum. Ef nú færi svo, að helmingur af tekjunum væri skattskyldur, er tekinn af þeim tekjuskattsauki. Ef hvert félag hefði rétt til þess að mynda lífeyrissjóð út af fyrir sig, myndu náttúrlega flest félög, t. d. bæjarfélög og einstaklingsfyrirtæki, stofna lífeyrissjóð. Þetta myndi ekki verða að öðru eins gagni eins og til er ætlazt samkv. l. Þess vegna álít ég það ekki ósanngjarnt, að þessi félög komi undir ákvæði alþýðutryggingarl.

Ég hirði ekki um að ræða frekar ýmsar gr. frv., en óska eftir, að því verði vísað til 2. umr. og allshn.