29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3265)

137. mál, alþýðutryggingar

*Eiríkur Einarsson:

Ég vil við þessa umr. láta þess getið, að af minni hálfu og fleiri þm. muni síðar verða bornar fram brtt., sem ganga í sömu átt og kom fram við fyrri umr.

Á fyrri hluta þessa þings komu einnig fram svipaðar till. um að svipta starfsmenn Landsbankans og Útvegsbankans þeim undanþágurétti, sem þeim er veittur í 62. gr. alþýðutryggingarl. Það var þá rætt um, að ef til þessarar breyt. kæmi, þegar tryggingarl. voru sett 1937, væri réttlátt að veita þessa undanþágu frá almennum elli- og örorkutryggingum þessum mönnum, með sérstöku tilliti til þess, að Landsbankinn er lögbundinn tryggingum á annan hátt. Ef hægt er að skylda hann með almennum tryggingum bæði hjá tryggingarstofnun ríkisins og lögskipa hann á eftir til að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð, er hann bundinn bæði á höndum og fótum. Hann væri a. m. k. frjálsari, ef hann væri aðeins bundinn annaðhvort á höndum eða fótum. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta mál nú, en vil taka fram, að það munu verða bornar fram brtt., sem lúta að þessu.