30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3273)

139. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er ekki nema eðlilegt, að till. eins og þessi komi fram hér á Alþ. Það hefir oft verið breytt til um samkomudag Alþ. og kann að virðast, að til þess liggi nokkur rök, að eðlilegast væri að halda Alþ. að haustinu, og hefir hv. flm. þessa frv. gert grein fyrir ýmsum þeirra. En þó verður því ekki neitað, að á venjulegum tímum á að vera auðvelt og vorkunnarlaust fyrir Alþ. afgr. fjárl., jafnvel þó jafnlangur tími liði þar til þau ganga í gildi sem verið hefir að undanförnu, þegar samkomudagur reglulegs Alþ. hefir verið 15. febr. En á óvenjulegum tímum er ekki hægt að neita því, að erfitt er að koma því við að hafa þinghald á þeim tíma, sem stjórnarskráin ákveður, og er því eðlilegt, að þessar till. komi fram. Þetta mál hefir líka verið til athugunar og um það rætt hjá ríkisstj., án þess að komizt hafi verið að nokkurri niðurstöðu um það, hvernig haga skyldi þinghaldi meðan tímarnir eru jafnóvissir og breytilegir og nú, enda mjög erfitt á slíkum tímum að afgreiða fjárlög, nema komið sé sem næst því ári, sem þau eru fyrir; annars verða þau allt of óviss.

Það eru þrjú meginatriði, sem ég vildi víkja að og vekja athygli á áður en málið fer til n.

Fyrsta atriðið er það, sem að vísu hefir verið haldið fram og hv. flm. þessa frv. gat um, að því hefir verið slegið nokkurn veginn föstu, að ekki þurfi að láta fara fram kosningar fyrr en 8 mánuðum eftir þingrof, ef kosningarnar hafa verið undirbúnar og auglýstar ekki síðar en 2 mánuðum eftir þingrof. Vegna þess hvernig á stendur hér á landi um veðurfar, er næstum ómögulegt að láta samkomudag reglulegs Alþingis vera 1. október, nema gengið sé út frá þeirri meginreglu, að kosningar þurfi ekki að fara fram fyrr en 8 mánuðum eftir þingrof, ef þær hafa verið auglýstar 2 mánuðum eftir þingrof. Sá skilningur verður þá skýlaust að ríkja. Það er auðsætt, að eins og hér stendur á um veðráttu og tíðarfar, verður það tæplega hugsanlegt, að láta kosningar fara fram skömmu eftir þingrof, ef um vetrarþing er að ræða, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Samgöngurnar geta verið svo fráleitar hér á landi og veðrátta svo slæm á kosningadaginn, að það útiloki meginþorra þeirra landsmanna, sem búa í dreifbýlinu, frá því að geta tekið þátt í kosningunum. Þetta mun vera aðalorsökin til þess, að samkomudagur reglulegs Alþingis er ákveðinn 15. febrúar í stjórnarskránni. Þess vegna verður ákveðinn skilningur á tveggja og átta mánaða frestinum að liggja fyrir, áður en hægt er að ákveða samkomudag Alþingis 1. október ár hvert.

Þá kem ég að öðru ágreiningsefni, sem er nokkuð verulegt. Ef frv. þetta verður að l., mun það ekki alltaf þykja viðkunnanlegt, að stjórn, sem ekki hefir meirihlutafylgi á Alþingi og af þeim ástæðum verður að rjúfa þing, sitji að völdum þar til kosningar fara fram næsta vor. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem gera verður sér ljóst áður en gengið er frá þessu frv., og því er ekki hægt að neita, að hér er um að ræða verulegan annmarka. Eðlilegast er, að vilji þjóðarinnar geti komið í ljós með almennum kosningum sem fyrst eftir að stjórn hefir misst meirihlutafylgi sitt á Alþingi.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, sem leiða myndi af þessari breytingu, og það er, eftir hvaða fjárlögum ætti að stjórna, ef þing er rofið, sem sennilega yrði oftast út af því, að skoðanamunur yrði svo mikill í þinginu, að hans vegna yrðu fjárlög ekki afgreidd. Sú stjórn, sem sæti að völdum eftir að þingið væri rofið, yrði að stjórna með bráðabirgðafjárl. frá áramótum og þar til þingkosning gæti farið fram um vorið.

Allar þessar afleiðingar tel ég, að hæstv. Alþingi verði að gera sér ljósar áður en gengið verður frá því, að samkomudagur reglulegs Alþingis verði 1. okt. ár hvert. Að mínu áliti verður að ganga út frá því, verði sá samkomudagur ákveðinn, að útilokað sé, að kosningar geti farið fram að vetrinum til. Ég get ekki neitað því, að rök þau, sem hv. flm. færði fram fyrir því, að þinghald verði á haustin, voru bæði mörg og veigamikil, og ber ekki að skoða þessi orð mín sem rök gegn frv., heldur sem bendingu um það, hvað menn verða að gera sér ljóst, áður en gengið er frá málinu.

Ætla ég svo ekki að ræða frekar um þetta mál á þessu stigi þess, en leyfi mér að beina þessum aths. mínum til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar.