30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (3276)

139. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

*Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Ég vil benda þeirri hv. n., sem fær mál þetta til meðferðar, á, hvort ekki sé heppilegra, ef breyta á samkomudegi reglulegs Alþingis, að setja hann þá fyrr en gert er í stjórnarskránni. Ef miðað er við þinghald undanfarinna ára, þá er tími sá, sem frv. gerir ráð fyrir, of stuttur til þinghalds, en ekki er von til, að þinghaldið styttist eftir því, sem þjóðinni fjölgar æ meir og meir. Ennfremur mætti minna á, að samkv. frv. er ætlazt til, að þinghaldinu verði lokið fyrir jól, en með því að binda sig við þennan tíma rétt fyrir hátíðirnar, þá yrðu utanbæjarþm. bundnir hér í Reykjavík yfir hátíðirnar. Það má e. t. v. segja, að það sé ekki stórt atriði, en vert er samt að geta þess.

Einnig vil ég benda hv. allshn. á, að ef til kæmi, að þingbyrjun yrði færð til 1. eða 15. september, þá er það alóheppilegasti tíminn fyrir þm., sem búsettir eru utan Reykjavíkur, sérstaklega bændur. En ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. vilji gera mönnum utan Reykjavíkur erfiðara fyrir um að sitja á þingi, heldur alveg hið gagnstæða.

Annars er það tvennt, sem mestu máli skiptir, þegar ræða á um samkomudag reglulegs Alþingis. Það er, á hvaða tíma er heppilegast að leiða mál þingsins til lykta og hvaða tíma þm. er heppilegast að verja til þingsetu. Um allt nema fjárl. skiptir það litlu máli, á hvaða tíma þingmálin eru afgreidd. Og um fjárl. tel ég það ekki heldur skipta svo miklu máli á þessum tímum, hvenær þau eru afgreidd. Ef sérstök þörf er til sparnaðar, þá er það oftast komið í ljós árið áður, og sparnaðinum er líka yfirleitt þannig varið, að ekki dregur verulega úr útgjöldum fjárl. Ég tel, að komið gæti til greina, að þetta frv. yrði samþ. fyrir árið 1940, miðað við það ófriðarástand, sem nú er, en að breyta eigi þinghaldinu til frambúðar, get ég tæplega gengið inn á. Á venjulegum tímum, þá tel ég, að 15. febrúar sé heppilegasti tíminn til að hefja þinghald fyrir alla, sem hlut eiga að máli; samt vil ég biðja hv. n. að athuga, hvort ekki væri jafnvel hægt að ákveða tíma fyrr á árinu, t. d. 1. janúar eða 1. febrúar. En það verður að miða við, að tíminn sé öllum þeim, sem sæti eiga á Alþingi, sem heppilegastur. Sé ég ekki, að neitt sé því til fyrirstöðu að hafa þann tíma, sem nú er ákveðinn.