30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

140. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jón Ívarsson):

Ég á hér frv. til laga um breyt. á jarðræktarlögunum, á þskj. 349. Aðalefni þessa frv. míns er, að tekið verði upp í 9. gr. jarðræktarlaganna ákvæði, er veiti styrk út á geymsluhús fyrir garðávexti. Gert er ráð fyrir, að kr. 5.00 verði greiddar á hvern teningsmetra, en jafnframt sett það skilyrði, að húsin séu vönduð og taki a. m. k. 4000 kg af kartöflum.

Þessi nýbreytni, sem hér er farið fram á, er í fullu samræmi við það, sem á sér stað um styrkveitingar til annara bygginga, sem eru líks eðlis. Heyhlöður eru samkv. gildandi lögum styrkhæfar, svo það er engin ástæða til, að geymsluhús fyrir kartöflur séu undanskildar slíkum styrk, því að það er nauðsynlegt að hafa örugg geymsluhús fyrir ýmiskonar jarðarávöxt, og þá sérstaklega fyrir kartöflur með tilliti til útsæðisins.

Þeim, sem leggja stund á kartöflurækt bæði til sölu og heimilisnota, er það nauðsyn að geta komið jarðarávöxtunum í hús hið allra bráðasta eftir upptöku. Það hefir einnig hina mestu þýðingu fyrir gæði vörunnar, að ekki þarf að flytja hana fyrst í stað, því að nýuppteknar kartöflur þola illa flutning, meðan hýðið er enn mjög þunnt, og þess vegna er nauðsynlegt, að hægt sé að geyma þær á öruggum stað, unz þær eru betur búnar undir langflutninga. Þá má ekki heldur gleyma því, að uppskerutími garðávaxta er hinn mesti annatími fólks, og er þá oft erfitt um flutninga. Sú aukning sem orðið hefir í ræktun garðávaxta, er hin lofsverðasta. En hún kemur ekki að fullu haldi nema því aðeins, að menn geti geymt uppskeru sína, þurfi ekki að selja hana nema þegar hentugar markaðsástæður eru fyrir hendi, og sannast þar sem oftar, að ekki er minni vandi að gæta fengins fjár en að afla þess. En það hefir sýnt sig, að menn hafa ekki haft full not af uppskeru sinni vegna illra geymsluhúsa.

Nú á þessu hausti hefir kartöfluuppskeran orðið meiri en nokkru sinni fyrr, og hún fer langt fram úr því, er þjóðin notar á árinu. Menn verða því að geyma uppskeruna lengi fram eftir, vegna þess að markaðurinn getur ekki þegar í stað tekið við allri framleiðslunni. Í því sambandi má benda á, að hægt er að minnka kornneyzluna með meiri kartöflunotkun. Einnig væri hægt að fá brauðgerðarhús til að gera athuganir á að blanda kartöflum í brauð og komast að raun um, hver áhrif það myndi hafa á bragð og verð brauðsins. Ennfremur eru allar horfur á, að kartöflur til heimanotkunar muni aukast að mun.

Þeir menn, sem garðrækt stunda hér á landi, eiga mikið á hættu. Útlendur áburður hefir hækkað mikið undanfarið, og sama er að segja um allt girðingarefni. Það þarf ekki aðeins land og vinnu til að stunda þessa atvinnugrein, heldur líka girðingar og áburð. Allt þetta styður því þá skoðun, að geymsluhús fyrir kartöflur verði gerð styrkhæf í jarðræktarlögunum, sérstaklega þegar alltaf er verið að hvetja menn til að auka garðræktina. Framkvæmd laganna yrði að sjálfsögðu í höndum trúnaðarmanna Búnaðarfélagsins.

Ég hefi í frv. lagt til, að þær kartöflugeymslur, sem byggðar hafa verið á árinu 1939, verði gerðar styrkhæfar. Það er ekki að efa, að mörg þús. tunnur af kartöflum liggja ónotaðar í landinu. Við vitum, að ef koma hörð frost, þá kemur það niður á vörunni og veldur tjóni. Og þótt þetta ákvæði bæti ekki úr því tjóni, sem verða kann í vetur, þá er það þó viðleitni til þess að afstýra því, að slík hætta geri usla í framtíðinni. Ég vil svo ekki orðlengja þetta frekar, en vona, að hv. deild vilji vísa málinu til landbn.