04.12.1939
Neðri deild: 74. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

141. mál, vistarverur háseta á stríðshættusvæðum

*Flm. (Ísleifur Högnason):

Þetta frv. fjallar um það, að breyta þannig vistarverum á þeim skipum, sem ferðast milli landa á ófriðartímum, að sjómönnum þeim, sem í skipinu búa, stafi ekki eins mikill háski af völdum þess, að skip steyti á tundurdufli og farist. Það er álit sjómanna, að þeim mönnum, sem búa í framhluta skips, er steytir á tundurdufli, sé mest hætta búin.

Það munu nú yfirleitt vera samtök um það meðal skipstjóra að flytja vistarverur háseta aftar í skipin, en þó er það ekki nógu almennt, og því síður hitt, að ganga þannig frá varðmanni framarlega á skipinu, að hann sé öruggur. Það hefir verið tekið upp víða erlendis að koma honum fyrir í skýli eða körfu, sem fest er í framsiglu skipsins.

Þetta mál er mikil öryggisráðstöfun fyrir sjómennina, sem sigla um höfin. Það er viðurkennt, að tundurduflahættan verður meiri og meiri, og það er ekki einhlítt, að þessa sé gætt af skipstjórunum, ef þingið tekur ekki ákvörðun um þetta mál og lögfestir það.

Ég vænti þess, að hv. þm. og sú n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, taki það til alvarlegrar íhugunar og það fáist afgr. sem fyrst.

Þetta mál er svo einfalt, að það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því. Ég þykist vita, að það sé krafa meiri hluta sjómannastéttarinnar, að þetta verði lögskipað.

Ég vona svo, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.