19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

Sigurður E. Hlíðar:

Mig langar til að gera grein fyrir atkv. mínu með nokkrum orðum. — Ég gæti kosið, að frv. gerði meiri greinarmun á svokölluðum vargfuglum, því að það er mikill munur á þessum fuglum, sem á síðari árum hafa verið löglega réttdræpir. Máltækið segir, að guð borgi fyrir hrafninn, og um alla þessa vargfugla má segja, að þeir eru mjög háðir náttúrunni; þeir falla í harðærunum og þeim fjölgar í góðærunum. Árið 1918 féll allur fugl ásamt æðarfuglinum, og það svo mjög, að stórsá á fuglafjölda landsins frá því, sem áður var. Náttúran heldur við þessum fugli eða eyðir honum, eftir því sem á stendur. En nýstárlegt þykir mér, er frv. gerir hrafninn að ránfugli. Nú er gerður greinarmunur á hræfuglum og ránfuglum. Hrafninn er hrædýr, þegar hart er í ári, og ég veit engin dæmi þess, að hann ráðist á lifandi fugl. Örn og fálki eru aftur á móti ránfuglar. Það er vitað að mikill fjöldi vargfugls er í sambandi við æðarvarp, eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram í ræðu sinni.

Samkv. þessu frv. á að hefja herferð til að útrýma hröfnum og svartbak á tveimur árum. Það á að gera út vopnað lið í þessu skyni og verðlauna með einni krónu fyrir hvern af þessum fuglum, sem tekst að skjóta niður. Geri ég ráð fyrir, að nú á þessum atvinnuleysistímum mundu margir verða til að gera út smábáta til að elta svartbak eða til að reyna að ná í hrafn. Gætu þessir leiðangrar orðið til talsverðra tekna. Í þessu sambandi dettur mér í hug það, sem Danir gerðu einu sinni. Þeir vildu útrýma einu skaðlegu dýri, rottunni, sem ekki aðeins veldur tjóni á eignum manna, heldur á einnig að geta valdið smitun á mönnum. Þeir hétu því verðlaunum hverjum þeim, sem komið gæti með rottuham. Í Kaupmannahöfn var mikið talað um þetta, og unglingar lögðu fyrir sig að drepa rottu og fengu 10 aura fyrir hverja. Nú er meiningin að veita einnar krónu verðlaun fyrir hvern hrafn og svartbak, sem drepinn yrði. Það er mikill munur.

Mér finnst full ástæða til, að þetta frv. væri tekið til nánari athugunar, og legg til, að því verði aftur vísað til n. áður en það verður endanlega afgr. héðan.