19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (3299)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Garðar Þorsteinsson:

Það eru aðeins örfá orð, því að ég vil ekki tefja umr.

Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á (Atvmrh.: Hrafninn er búinn að éta hann — SK: Nei, ég held ekki), að bæði hann og hv. þm. Barð., sem eru flm. þessa frv., hafa lýst því yfir, að þeim sé algert aukaatriði að drepa hrafninn, — aðalatriðið sé að drepa svartbakinn. Ég vil þá benda þeim á, að það eru þegar til l. um eyðingu svartbaks og frv. því raunverulega auglýst alveg óþarft.

Hv. 6. þm. Reykv. segir, að sektarákvæðin séu ekki nýmæli. Ég vil benda honum á, að það er annað ákvæði í frv. en í gömlu l., því að samkv. þeim á aðeins að beita sektarákvæðum, ef jarðarábúandi vanrækir eyðingu svartbakseggja af ásetningi eða skeytingarleysi. Hér er engin slík afsökun til fyrir hann. Svo segir hann, að það sé alveg víst, að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Rang., að sektarákvæðunum verði ekki beitt, þó að menn láti vera að eyða eggjum utan síns heimalands. Þó stendur í grg., sem hann sjálfur hefir samið, að mönnum sé skylt að eyða eggjum í heimalandi sínu og öðrum þeim löndum, sem þeir ráða yfir, og þá líka afréttarlöndum. Hv. flm. frv. er því nú að boða, að ekki eigi að taka stranglega þessi ákvæði frv., enda skil ég ekki, að það geti náð nokkurri átt að leggja í frv. þann skilning, að landeigandi verði að leita uppi hrafna- og veiðibjölluhreiður úti um fjöll og óbyggðir, og allt að 300 kr. sekt liggi við, skilyrðislaust, ef það er ekki gert.

Aðalatriðið, sem mér finnst vera gegn þessu frv., er það, sem hv. þm. Barð. sagði, að það væri ekkert aðalatriði með hrafninn, heldur aðeins með veiðibjölluna, og þegar svo er upplýst, að til eru l. um eyðingu svartbaks, þá skil ég ekki, hvað þetta frv. á að þýða, nema þá það, að þeir álíti, að þessi hækkun á gjaldinu fyrir hvern svartbak geti orðið til að freista manna til að fara á þessar fuglaveiðar. Þeir hafa ekki komið með nein gögn fyrir, að æðarvarp hafi minnkað af völdum hrafns. Ef þetta frv. verður ekki drepið eða á annan hátt eytt í d., þá mun ég bera fram till. um, að ákvæðið um hrafninn verði fellt burt.

Annars vil ég segja það, að orð hv. 6. þm. Reykv. í okkar garð fara fyrir ofan garð og neðan, a. m. k. hjá mér. Mér er sama, þó að hann segi um mig, að þar sé blindur maður að dæma um lit. Ég má hafa mína skoðun eins og hann sína. Hann hefir engar sögur um, að hrafninn grandi þessum ungum, nema það, sem hann minnir frá því að hann var barn. Ef hann hefir engar sönnur um það síðan hann kom til vits og ára, þá er það sönnun þess, að hrafninn hefir batnað, þó að hv. þm. hafi ekki gert það. Þessi vargaskapur hv. þm. var svo áberandi hér, þó að hann væri tignarlegur, þar sem hann stóð með nokkrum þóttasvip, og hans tilburðir voru þannig, að ef litarháttur hans hefði ekki verið eins og hann var, þá hefði enginn efazt um, að nýr krummi hefði verið kominn hér í d.