19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Pálmi Hannesson:

Það kom greinilega fram, að hv. þm. Barð. hefir illt mál að verja, svo illt, að hann verður að afneita sinni eigin sjón og heyrn til þess að geta staðið fyrir því. Skyldu hv. þdm. ekki hafa heyrt, þegar því var lýst yfir, að fuglafriðunarl. hefðu verið tekin til endurskoðunar og vonandi lögð fyrir næsta þing? Ég man ekki betur en að hv. þm. Barð. væri viðstaddur, en nú læzt hann ekki hafa heyrt það. Hann gengur meira að segja svo langt í að afneita almennri skynsemi, að hann segir, að þm. geti ekki dæmt um ákvæði fuglafriðunarlaganna. Hver er að tala um að dæma um það nú? En þær till. verða lagðar fyrir næsta þing, og þá verður væntanlega hægt að dæma um þær, — eða álítur hv. þm., að þetta krefjist svo skjótrar aðgerðar, þessi herferð, að það megi ekki doka við fram á vorið? Ég vil benda hv. þm. á, að það eru til fleiri fuglar, svo sem fiskiendurnar, sem sennilega valda miklu meiri skaða en þessir fuglar, sem hér á að drepa niður, en menn hafa það ekki eins fyrir augum ef til vill. Ég álít fjarstæðu að taka þessa tvo fugla fyrir og setja ákvæði um að uppræta þá, hvar sem þeir finnast, en ekki að fara þá skynsamlegu leið, að bægja þeim burt frá þeim stöðum, þar sem þeir gera skaða, en lofa þeim að vera í friði þar, sem þeir gera engum mein.

Hv. þm. Barð. vildi gera lítið úr því, að rannsóknarnefnd ríkisins, sem hann nefndi náttúrufriðunarnefnd — hann gat ekki haft rétt eftir þetta orð, sem hann nýlega hafði heyrt, — mundi nokkuð gera í þessu máli. Hún hefir verið til þess kjörin af Alþingi, að vinna að rannsóknum í þágu atvinnuveganna. Það hefir þegar verið rætt við þann mann, sem kunnugastur er þessum málum, æðarvarpi og fuglafriðun, að taka það mál til rannsóknar á næsta ári, til að geta bætt það ástand, sem nú er, að æðarvarpið dregst verulega saman, en þar hygg ég, að fleira komi til greina en að útrýma veiðibjöllu og hrafni. Ég er hræddur um, að menn gerist stundum nokkuð nærgöngulir við varplönd. Kannske hv. þm. vilji útrýma þeim, sem fara með byssur hér? En þegar menn fara að elta krummagrey með skotum eða veiðibjöllu, þá gæti einhver fallið í þá freistni að fýra af á eina kollu eða svo.

Ég tel ekki svaravert, að dagskrártill. sé ekki frambærileg. Sú staðhæfing hv. þm. sýnir greinilega, hvað hann stendur á veikum ísi. Dagskrártill. kemur að höfuðkjarna málsins. Málinu liggur ekki svo á, að það megi ekki bíða meðan undirbúningur friðunarlaganna er ger og æðarvarpið rannsakað og fundin ráð, sem tiltækilegust eru til að bjarga þessum merka atvinnuvegi. Þar gæti þetta komið til álita. En eins og nú horfir, þá virðist mér þessu máli vera fylgt fram með slíkum ofsa, að mér finnst, að menn ættu að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir lögfesta þetta frv.