19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Það er ekki mikil ástæða til að egnast af þessu. Hv. þm. býr til hina og aðra vitleysu, sem hann segir svo, að ég hafi sagt. Hann endaði ræðu sína með því að halda því fram, að menn færu að fara út í myrkri til þess að skjóta þessa fugla. Ræða hans var yfirleitt byggð á svo miklum rökleysum og vitleysu, að mér dettur ekki í hug að svara henni.

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, endurtaka, að það er rétt hjá mér, að það er enginn grundvöllur fyrir dagskrártill. Ég vil endurtaka það, að þingið veit ekkert um, hvaða till. til breyt. á fuglafriðunarlögunum koma fyrir næsta þing, eða hvort þær snerta þetta efni, sem hér um ræðir. Ef taka á öll fuglafriðunarl. til endurskoðunar, þá býst ég við, að fram komi mjög skiptar skoðanir, ekki síður en um það einstaka atriði, sem hér kemur fyrir um það, hvort hv. þm. vilji ákveða með l. að gera meira en nú er gert til að útrýma vargfugli, sem er stórkostlega hættulegur einum beztu hlunnindum hér á landi, æðarvarpinu. Ég er sannfærður um, að ef hv. 1. þm. Rang. væri prestur í Vigur í stað þess að vera prestur á Breiðabólsstað, þá væri hann með þessu frv., en ekki á móti því.