19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (3307)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég get verið stuttorður, því þetta svar hv. flm. var alveg út í hött, eins og t. d. þegar komið er út í að ræða það, hvort hrafn situr á kirkjuburstinni í Vigur eða á Breiðabólsstað.

Þetta frv. er allt byggt á endileysu, því það yrði að ganga framhjá ákvæðum þess, ef það yrði að l. Hv. flm. sagði t. d., að það kæmi ekki til mála að taka mark á sektarákvæðum þess.

Að halda að fuglafriðunarl., sem verið er að undirbúa, nái til þess að friða alla fugla, er hinn mesti misskilningur. Hitt hefi ég haldið, að okkur myndi takast að skapa friðunarl., sem byggð væru á staðháttum og aðstöðu í okkar landi, en ekki væru teknar einstakar fuglategundir, sem ekki væru aðeins ófriðaðir, heldur væri veitt stórfé til að útrýma þeim.

Þegar hv. þm. er að tala um ránfugla í þessu sambandi, þá er það náttúrlega alveg eftir öðru í þessu máli, að hann er ekki svo vel að sér í fuglafræði, að hann viti, til hvaða tegunda þessir fuglar teljast.