11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (3325)

154. mál, landspjöll af mannavöldum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Eins og getið er um í grg. frv., þá er það flutt að tilhlutun búnaðarþings.

Ástæða til flutnings þessa máls er í fám orðum sú, að þannig háttar víða til, einkum á Suðurlandi, að þar er víða sand- og malartekja, og ef henni er framfylgt af miklum dugnaði, þá er nytjalöndunum sumstaðar stórkostleg hætta búin af því. Víða hafa sandkambar borizt upp með sjó fram og eru sem varnargarður fyrir graslendi, sem liggur fyrir ofan. Sumstaðar er hér um bil búið að grafa skarð í þennan varnargarð og ekki útlit fyrir annað en sjór flæði yfir nytjalönd, sem eru þar fyrir ofan. Sumstaðar er um að ræða miklar og grasgefnar spildur í byggð, sem fjöldi manna hefir framfærslu af. Sýnilegt er, að ef ekki er spornað við þessu, þá eru lönd þau, er þarna liggja, í stórhættu. Í núgildandi löggjöf eru engin ákvæði, sem banna þetta. Þess vegna hefir búnaðarþing óskað eftir, að slík lög verði sett.

Ég vænti þess, að hv. þingd. taki þessu máli með skilningi, og óska eftir að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til landbn.