23.03.1939
Efri deild: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (3358)

45. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Magnús Gíslason):

Ég hefi borið þetta frv. fram ásamt hv. 2. þm. S.-M., og fjallar það um breyt. á l. um dragnótaveiðar, sem sé, að dragnótaveiðar verði bannaðar innan afmarkaðra hafnarsvæða hvar sem er á landinu. En nú er það svo, að vissan tíma ársins eru dragnótaveiðar leyfðar alstaðar innan íslenzkrar landhelgi, og þann rétt hafa dragnótabátar notað sér freklega. Þeir hafa farið upp undir landsteina hvar sem þeim hefir haldizt það uppi, og allt upp undir netalagnir, sem tilheyra jörðum og eru 60 faðma frá stórstraumsfjöru. Einnig hafa dragnótabátar farið inn á hafnir þar, sem einhver von var um kolaveiði, og gætir þess einkum við Austfirði, því að þar hagar víða svo til, að hafnirnar eru fyrir opnu hafi, og smákoli og aðrir smáfiskar ganga þar alveg upp undir landsteina. Þetta hefir vakið talsverða óánægju hjá þeim, sem veiða smákola sér til matar, því að ef dragnótabátar hafa verið þar að veiðum einn einasta dag, þá hefir tekið fyrir alla veiði þar um langan tíma, og auk þess telja sumir, að þessar veiðar muni spilla fyrir síldveiðum og skemma veiðarfæri.

Þess vegna hafa menn á Austfjörðum óskað eftir því, að þessu væri breytt með l., þannig, að dragnótaveiðar inni á höfnum væru ekki leyfðar. Nú er það líka aðgætandi, að þessar veiðar hafa brotið í bága við þær reglur, sem settar hafa verið um notkun hafna. Þessar veiðar eru allumfangsmiklar, og það er ekki vel samrýmanlegt, að þær fari fram þar, sem skip eiga að geta legið í friði. Ég mun svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv., en vísa til grg., sem fylgir því. Ég leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til sjútvn. Ég býst ekki við, að það standi neinn styrr um það, og vænti þess, að það fái greiða afgreiðslu hér í hv. deild.