13.04.1939
Efri deild: 38. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

68. mál, jarðræktarlög

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Aðalbreyt., sem farið er fram á á jarðræktarl. frá 1936 með þessu frv., er fólgin í eftirfarandi:

Bændur, sem búa á býlum, þar sem er minna tún en 8 ha. véltækt, fái helmingi hærri styrk heldur en grundvallarstyrkur sá er, sem þeir geta fengið samkv. 9. gr. l. Hinsvegar fá bændur, sem hafa stærra tún en 10 ha. véltæka, engan styrk til túnræktar.

Þetta á að miða að því að útrýma kotbýlunum og gera lífvænlegt fyrir fátækari bændur í sveitunum. Enda þótt menn aðhyllist þessa stefnu í aðalatriðum, þá er vitanlega hægt að deila um, hvar eigi að setja markið, og eins er hægt að deila um, hvað styrkurinn þurfi að hækka mikið til smærri býlanna, kotbýlanna, til þess að svona ákvæði nái tilgangi sínum.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort þessu frv. hefir tekizt að hitta skilyrðislaust á hið réttasta í þessu efni. En ég hygg, að styrkurinn þurfi að vera svona hár til þess að tryggja það, að smábændurnir treysti sér til að leggja í jarðrækt í stórum stíl.

8 ha. markið, sem hér er sett, er sú túnstærð, sem má teljast viðunandi fyrir býli. Ég held, að enginn vafi sé á því, að með svo stóru túni má hafa viðunandi bú. Ef túnið er hinsvegar 10 ha., þá er talið rétt, að enginn styrkur greiðist til túnræktar. Þá fer það að verða kapitalistískur rekstur, og það þykir ekki rétt að styrkja hann af opinberu fé frekar en annan kapítalistiskan rekstur, enda þótt í smáum stíl sé.

Önnur smábreyt. felst í þessu frv. Samkv. jarðræktarl. frá 1936 er styrkur til grjótnáms allmjög takmarkaður. Þó það megi yfirleitt telja þetta rétta ráðstöfun, þá kemur það samt í ýmsum tilfellum öðruvísi niður en til var ætlazt, þar sem svo stendur á, að nauðsyn er á ræktun kringum bæi, þar sem jarðvegur er grýttur. Ég á hér sérstaklega við Vestmannaeyjar, en þaðan hafa borizt margar umkvartanir viðvíkjandi þessu. Ég hefi þess vegna lagt til, að gerð verði undantekning frá þessu ákvæði, þegar svona stendur á. Það virðist ekki nema sjálfsagt, enda er það í samræmi við önnur ákvæði þessarar gr., og það hróflar ekki við höfuðmarkmiði þessa lagaákvæðis frá 1936.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til landbn.