10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (3389)

108. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og getið er um í grg. frv., er það flutt af allshn. eftir mínum tilmælum, en ég hefi þar hinsvegar orðið við tilmælum Bandalags íslenzkra listamanna um að koma málinu á framfæri. Það, sem farið er fram á, eru tvær breytingar á l. um rithöfundarétt og prentrétt. Eins og stendur er íslenzkum listamönnum og rithöfundum ómögulegt að vera í svonefndu Bernarsambandi, en það eru alþjóðasamtök rithöfunda og annara listamanna, kennd við borgina Bern. Breytingarnar eru á þá lund, að þeim sé gert mögulegt að njóta þeirrar verndar, sem það veitir. Í grg. liggja fyrir upplýsingar um, að nægilegt sé að fella burt úr núgildandi lögum tvö atriði, sem snerta frelsi manna til að nota sér verk höfunda án leyfis. Annað er þessi málsgr. 1. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta: ,,Heimilt er þó að lesa upp rit, sem út hefir verið gefið, hafi rithöfundur eigi á titilblaði þess lagt bann við því, og þrátt fyrir slíkt bann er upplestur leyfilegur, þegar liðin eru 5 ár frá því, að ritið kom út í fyrsta sinn.“ M. ö. o. er einkaréttur rithöfunda samkv. núg. lögum ekki varinn nema í 5 ár. En eftir að þetta væri fellt burt, yrði réttur manna til þessara verka sinna varinn jafnt og eignarréttur á annari framleiðslu. — Hin málsgr. er í 2. gr.: „Heimilt er þó að syngja eða leika á hljóðfæri opinberlega danslög og sönglög, er áður hafa verið birt, svo og einstaka kafla úr öðrum útgefnum lagsmíðum.“ Með því að fella þetta burt væri það afnumið, að tónskáld eigi engan rétt á lögum sínum, en hver og einn megi leika þau eftir vild.

Þó að frv. verði samþ., er ekki þar með sagt, að Bandalag íslenzkra listamanna gangi þegar í stað í Bernarsambandið. Ég hefi heyrt því fleygt, að menn séu dálítið smeykir við að lögleiða hér sama rétt og gildir víðast annarstaðar í þessum efnum. Því er haldið fram, að við ættum að nota okkur það að geta framvegis fengið erlend listaverk fyrir ekkert og leyfislaust, bækur, leikrit, sönglög o. s. frv. En ég fyrir mitt leyti tel það allt að því skrælingjahátt, að þjóðin skuli ekki vernda rétt íslenzkra manna erlendis, heldur lögvernda hér í staðinn þjófnað á verkum erlendra höfunda. Hinsvegar er það svo í framkvæmd, að ef leitað er leyfis erlendra höfunda til að þýða verk þeirra eða nota hér á landi, þá fæst það undantekningarlaust, og svo að segja undantekningarlaust fæst það ókeypis. Því að þegar rithöfundum er sagt, að það eigi að þýða verk þeirra á mál, sem einar 120 þús. manna tala, geta þeir sagt sér það sjálfir, að ekki sé hægt að borga þeim fyrir það. Ég veit dæmi þess, að þeir óska þá aðeins að fá 1–2 eintök af bókinni á íslenzkri tungu, sem þeir geyma eins og einskonar „curiosum“. Ég ber því engan kvíðboga fyrir, að þetta verði hindrun þeim, sem þýða bækur á íslenzku. Ef Íslendingar færu í Bernarsambandið, er enginn vafi á, að það yrði verulegur hagnaður fyrir íslenzka listamenn og rithöfunda, þar sem nú getur hver sem vill tekið t. d. tónverk þeirra eða ritverk leyfislaust. Kostnaðarauki hér á landi yrði aftur á móti hverfandi eða enginn, nema ég geri ráð fyrir, að ein stofnun, ríkisútvarpið, yrði að greiða höfundum nokkrar þóknanir umfram það, sem er, fyrir upplestur á verkum þeirra og flutning tónsmíða. En raunar er varla sæmandi, að sú stofnun gangi á undan í því að nota sér verkin leyfislaust. Mér er persónulega kunnugt um, að leitað hefir verið samkomulags milli útvarpsins og Bandalags ísl. listamanna um þessi efni. Og ég held það sé vafalaust, að samkomulag geti fengizt með þeim aðilum, svo að báðir megi vel við una.

Mér hefir skilizt, að hv. allshn. vildi gjarnan athuga málið nánar, þótt frv. sé borið fram af henni, og tel ég rétt, að því sé vísað til hennar að lokinni þessari umr. Vænti ég þess, að það fái að ganga gegnum deildina sem fyrst og í höfuðatriðum eins og það er nú.