28.11.1939
Efri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (3401)

134. mál, vinnutími starfsstúlkna á heimilum

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Eins og stendur í grg. frv., þá er það fram komið einkum að ósk frá félagi starfsstúlkna hér í bæ, „Sókn“, að svona löggjöf yrði sett eins og felst í þessu frv. Samskonar ósk hefir komið frá landsfundi kvenna, sem haldinn var í Reykjavík 1938. Vegna þessara óska er þetta frv. flutt. Hér er ekki farið fram á annað en að starfsstúlkur á heimilum og í þessum stofnunum, sem hér eru tilteknar, fái sama rétt og aðrar atvinnustéttir landsins, þ. e. a. s. að starfstími þeirra verði takmarkaður. Þó eru þessi ákvæði ákaflega rúm. Ýmsar starfsstéttir hafa náð þessum rétti, ýmist með sérstökum samningum, sem gerðir hafa verið milli þeirra og atvinnurekenda, eða þá með löggjöf, eins og togarasjómenn.

Hvað starfsstúlkur snertir er ákaflega erfitt með samtök meðal þeirra. Þær stunda þetta starf oft aðeins stuttan tíma, heldur er alltaf nýtt og nýtt fólk að koma inn í þessa starfsgrein, en hitt hverfur burt. Þess vegna hefir verið litið svo á, að þar þyrfti löggjöf að koma til.

Í þessu frv. er gengið ákaflega skammt og ákvæði þess afar rúm. Það er hægt að hafa vinnutímann lengri en 10 tíma, ef borgað er sérstaklega fyrir það, eða þá bætt upp með fríi á öðrum tíma, en ákvæðin eru svona rúm með tilliti til þeirra erfiðleika, sem húsmæður hafa við að búa. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að þetta mál hafi ekki mætt mikilli andspyrnu hjá húsmæðrum. Húsmæður, sem mættu á landsfundi kvenna, þar sem þetta mál var tekið fyrir, töldu sanngjarnt og sjálfsagt að setja slíka löggjöf, sem að einhverju leyti tryggði rétt þessara stúlkna. Þessi hússtörf eru oft mjög þreytandi. Margar stúlkur hafa þennan rétt, þó að þeim sé ekki tryggður hann með l., en ég álít, að rétt sé að tryggja með l. þann rétt fyrir allar þessar stúlkur, til þess að koma í veg fyrir, að þær, sem verst eru settar, fari á mis við þennan rétt, og að fyrirbyggja, að þær séu þrælkaðar, og hvað húsmæður snertir, er ekki sæmandi að taka tillit til þeirra á þann hátt, að þær megi þrælka vinnustúlkur.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en óska, að það fái að ganga til 2. umr. og n., og að það fái skjóta afgreiðslu.